136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta mál má ræða á marga vegu. Ég kýs að gera það út frá ræðu minni við 1. umr. um málið. Þar lýsti ég því yfir að það væri afar erfitt fyrir mig að styðja þetta frumvarp og benti á a.m.k. ein 11 atriði sem stæðu að baki þeirri afstöðu minni auk almennra efasemda um þá stórkarlastefnu sem undanfarna áratugi hefur viðgengist hér í atvinnuuppbyggingu og framkvæmdum og ég tel að sé ekki leiðin til Nýja Íslands eftir það fjárhagslega og siðferðilega hrun sem við höfum orðið vitni að í vetur.

Við 2. umr. er sjálfsagt að athuga þessi 11 atriði, a.m.k. einhver þeirra, hvernig þau hafa verið tekin fyrir í störfum hinnar háu iðnaðarnefndar á Alþingi og í þeim tveimur öðrum nefndum sem skilað hafa áliti sínu til iðnaðarnefndar. Í fyrsta lagi kvartaði ég yfir því að hér væri verið að gefa heimild til samninga við eitt fyrirtæki og engar almennar reglur væru lagðar fram um ívilnun af þessu tagi sem auðvitað kemur vel til greina og ætti að bera fram. Ekki væri óeðlilegt að slíkt væri til um fjárfestingar af ýmsu tagi, innlendar og erlendar, og væri þá þannig að hægt væri að taka tillit til mismunar atvinnufyrirtækjanna eða framleiðslufyrirtækjanna, verksmiðjanna, svo sem þáttar þeirra í mengun og orkuverðs sem fyrirtækin geta greitt, væntanlegan skatthagnað af fyrirtækjunum, hvort þau auka fjölbreytni í atvinnulífinu o.s.frv. Það er ekki gert og meiri hluti nefndarinnar kemst einungis að þeirri niðurstöðu að tyggja það eftir frumvarpstextanum eða nefndarálitinu, með þínu leyfi, forseti:

„… að erfiðleikar við fjármögnun verkefnisins réðu úrslitum um að stjórnvöld tóku þá ákvörðun að leita eftir heimild Alþingis til að ganga til samninga við félagið um sérkjör við skattgreiðslur. Slíkur samningur er talin forsenda þess að fjármögnun verkefnisins takist.“

Það liggur engin sjálfstæð athugun að baki því hvort þessi samningur er forsenda þess að fjármögnun verkefnisins takist, heldur er þetta tekið upp í álitinu og ekkert um það fjallað. Síðan kemur sú lína í áliti meiri hlutans að hann telji, með leyfi forseta:

„… að með tilliti til stærðar verkefnisins og áhrifa þess á atvinnulíf, þ.m.t. afleiddra starfa og kaupa álversins á vörum og þjónustu, þá sé þessi styrkur réttlætanlegur …“.

Þarna er gefin lína um ríkisstyrki í framtíðinni, virðist vera, og það er athyglisvert að það sem í raun og veru er talið fram er stærð verkefnisins og hugsanleg kaup álversins á vörum og þjónustu.

Það er heldur dapurlegur rökstuðningur og raun og veru málflutningur á sómamörkum því að meiri hluti iðnaðarnefndar hafði fengið vísbendingar um það frá fleirum en mér, aumingja mínum, að um þetta þyrfti að fjalla.

Um skattamálin kemur það svo fram í áliti minni hluta efnahags- og skattanefndar að samningurinn gengur í raun og veru lengra en sá samningur sem sögð er fyrirmynd þessa samnings, þ.e. samningurinn um álverið í Reyðarfirði sem gefur svigrúm fyrir 18% tekjuskatt, væntanlega vegna þess að þá var 18% tekjuskattur í landinu, en þessi aðeins 15% þannig að að samþykktri þessari heimild er möguleiki að mismuna álfyrirtækjunum innbyrðis. Ég tel það alveg kostulega stöðu sem meiri hluti iðnaðarnefndar hefur sjálfsagt ekki áttað sig á.

Í öðru lagi taldi ég í ræðu minni við 1. umr. um málið að hér væri um að ræða 3 milljarða kr. styrk til álfyrirtækisins en um það er engin umfjöllun, hvorki hjá meiri hluta iðnaðarnefndar né meiri hluta efnahags- og skattanefndar og því verður að taka það þannig að þessi tala og aðrar sem nefndar hafa verið séu sannar og réttar. Ekki hefur farið fram nein sjálfstæð athugun hjá nefndunum um þetta og þær treysta þá væntanlega upplýsingum iðnaðarráðuneytisins og nú- og fyrrverandi hæstvirtra iðnaðarráðherra sem ég gerði líka, 3 milljarðar miðað við 30 ár. Þá verður líka að taka fram sem erfitt er að meta, að þetta er líka skattafesting. Þetta er ekki skattafesting í þriðjung aldar eins og talan 3 milljarðar miðast við heldur skattafesting í 40 ár. Samningurinn er þannig að hann skal gerður til 20 ára en álverið getur framlengt að eigin ósk um önnur 20 ár samkvæmt grein 17.3 í samningsuppkastinu. Það er enginn smátími.

Dofri Hermannsson, félagi minn og meðframbjóðandi, rifjaði það upp eða sagði um þetta að hann yrði áttræður þegar þessum 40 árum lyki. Ég verð þá 96 ára, það er svona hár aldur. Ég verð að vísu enn þá vel sprækur alþingismaður að berjast fyrir jafnaðarstefnunni og umhverfisvernd (Gripið fram í.) en það er nokkuð langur tími sem álverinu er gefinn með skattana. Það væri fróðlegt að vita, miðað við tilteknar forsendur, hvað þetta kostar í mati fjármálaráðuneytisins eða iðnaðarráðuneytisins eða Evrópumati sem þetta þarf að fara í.

Í þriðja lagi, forseti, spurði ég um þjóðhagslega hagkvæmni miðað við þær umræður sem verið hafa um þjóðhagslega hagkvæmni álvera og annarrar stóriðju síðustu ár og nánast áratugi þar sem traustir hagfræðingar og aðrir fræðimenn hafa gagnrýnt þann stóra sannleik sem hér ríkti fyrrum um hina gríðarlegu arðsemi af stóriðju af þessu tagi. Ég bendi á nýlega umfjöllun um þetta, bæði grein Sigurðar Jóhannessonar í bókinni Uppbrot hugmyndakerfis og grein Indriða H. Þorlákssonar, núverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Í báðum greinum er komist að þeirri niðurstöðu að arðsemi sé miklum mun minni en hér hefur yfirleitt verið látið. Indriði H. Þorláksson segir um þetta, með leyfi forseta:

„Í heild má segja að efnahagslegur ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera sé lítill og hafi farið minnkandi á síðustu árum.“

Það sem nefndin virðist hafa gert í þessu samkvæmt meirihlutaálitinu er að hún kallaði til tvo hagfræðinga eða hagfræðinema, þá Daða Kristófersson og Svein Agnarsson, sem vinna í Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og skrifa þar einhvers konar skýrslu um gagnrýni OECD á stóriðjustefnu Íslendinga. Þeirri skýrslu er ekki lokið hjá Hagfræðistofnun HÍ, sem er raunar ekki óumdeild. Hagfræðistofnun hefur framleitt pappíra sem mönnum hefur svelgst á, en sleppum því. Iðnaðarnefnd er hér að fræðast um skýrslu sem þessir tveir höfundar eru með í smíðum. Sú skýrsla hefur ekki fengið faglega gagnrýni, hún hefur ekki verið ritrýnd í neinum fagtímaritum og er ekki almenn eða opin. Það er engin leið að átta sig á því hvað í henni stendur.

Þessi vinnubrögð meiri hluta iðnaðarnefndar eru mér ekki að skapi. Þetta er það eina sem nefndin gerir til að ná utan um þjóðhagslega arðsemi af eigin völdum og tekur annars mark á því sem áður hefur verið sagt. Hvað segja þessir menn? Þeir segja eitt og annað, þeir segja m.a. það sem er fín niðurstaða að stórframkvæmdir séu heppilegar í niðursveiflu. Það segja þeir Daði Kristófersson og Sveinn Agnarsson, málvinir meiri hluta iðnaðarnefndar. Það var kannski ekki alveg nýtt, að stórframkvæmdir séu heppilegar í niðursveiflu. Það er aldagömul speki, að stórframkvæmdir séu heppilegar í niðursveiflu, kannski á okkar öldum — ég segi öldum — frægastar sem hluti af nýgjafarstefnu Delanos Roosevelts Bandaríkjaforseta í kreppunni miklu og þurfti ekki þá Daða Kristófersson og Svein Agnarsson til að segja okkur þetta.

Í fjórða lagi, forseti, kom ég fram með upplýsingar sem hæstv. iðnaðarráðherra aflaði mér í svari við fyrirspurn um þjóðhagslega hagkvæmni annars vegar ferðaþjónustunnar og hins vegar stóriðjunnar. (Iðnrh.: Það var gott svar.) Og það var gott svar, svo sannarlega. Þar kom m.a. fram að verðmætishlutfall — eins og við skulum kalla það — af þjóðarframleiðslu hjá ferðaþjónustunni hefur verið 16% að meðaltali á síðustu árum en 8% af álverunum. Ferðaþjónustan hefur tvöfalt hlutfall í þjóðarframleiðslu á við álverin en hér er aðeins um að ræða fjárfestingar. Ef maður tekur bara reksturinn eru tölurnar þannig að í ferðaþjónustunni er 13–17% en 2–5% í áliðnaðinum. (Gripið fram í.) Þessi iðnaður er sá sem við ætlum að styrkja með 3 milljarða kr. framlagi á þessu tímabili og með þeim skattafslætti sem þetta kann að fela í sér. (Gripið fram í: Ferðaþjónustan …) Um þetta, forseti, segir meiri hluti iðnaðarnefndar ekki nokkurn skapaðan hlut, þó er hún líka ferðamálanefnd. Í áliti meiri hluta iðnaðarnefndar eru aldrei nefndir neinir valkostir, aldrei fjallað um annað en þetta eina, álver og málatilbúnaðinn í kringum það. Hvergi er fjallað um annan orkufrekan iðnað eða framtíðargreinar ýmsar, bara plús eða mínus álver og stórvirkjanir. Þessi málatilbúnaður, sem er auðvitað ekki nýr hjá meiri hluta iðnaðarnefndar, minnir satt að segja mest á bifvélavirkjann í Spaugstofunni, þennan sem reiðir upp hamarinn og hefur kjörorðið „Allt vill lagið hafa.“

Í fimmta lagi, forseti, (Gripið fram í.) — mér er í raun og veru sama hverjir hlusta hér, ég flyt mál mitt líka til þjóðarinnar — vakti ég athygli á því eins og reyndar fleiri að það álver sem hér um ræðir, sem gera á samninginn um á að vera 360.000 tonn samkvæmt frumvarpinu en umhverfismat liggur ekki fyrir nema um 250.000 tonn. Sem betur fer var í nokkuð vandaðri umsögn meiri hluta umhverfisnefndar vakin sérstök athygli á því, með leyfi forseta, að mat Skipulagsstofnunar „snýr eingöngu að umhverfisáhrifum af fyrirhuguðu álveri“ — þ.e. miðað við 250.000 — „en ekki tengdum framkvæmdum“. Meiri hluti umhverfisnefndar segir enn fremur:

„Umhverfismat Skipulagsstofnunar byggist jafnframt á álveri með sömu framleiðslugetu og getið er í starfsleyfi, þ.e. 110 þúsund tonnum minni en framleiðslugetu samkvæmt samningi. Vekur meiri hlutinn athygli á þessu misræmi.“

Meiri hluti iðnaðarnefndar gerir ekki nokkurn skapaðan hlut með þessa ábendingu. Það er kannski ekki rétt að hún geri ekki nokkurn skapaðan hlut, heldur viðurkennir hún að „fabrikkan“ hafi ekki starfsleyfi. Og það er ekki umhverfismat umfram 250.000 en skýrir ekki fyrir okkur hvers vegna það var ekki eðlilegt að miða fjárfestingarsamninginn við þessi 250.000 heldur klykkir út með því að meiri hlutinn telji að þó sé þetta réttlætanlegt — það er þetta orð, „þó“, sem ekki er útskýrt. Okkur er ekki sagt hvers vegna ekki var þá hægt að setja reglur um viðbótarstærðina síðar og af hverju ekki er lögð til þá enn þá meiri stækkun því að talan er komin frá álfyrirtækinu og forgangsmönnum um álverið. Það er ekkert sjálfstætt mat sem liggur að baki þessari tölu frá ráðuneytinu og endar röksemdafærsla frá meiri hluta iðnaðarnefndar um þetta efni.

Í sjötta lagi benti ég á að ófrágengið væri um raflínur á Reykjanesskaga og nágrenni og það er einfaldlega um það að segja að iðnaðarnefnd hefur ekki áhuga á þeim þætti málsins. Umhverfisnefnd fjallar heldur ekki beinlínis um það en bendir þó á að umhverfismatið sé ekki frágengið við tengdar framkvæmdir. Hér á að fara í þessa samningagerð án þess að umhverfismat liggi fyrir um neitt annað en þessi 250.000 tonn. Það finnst mér ekki ábyrg afstaða, ég segi það hér með.

Í áttunda lagi, forseti, spurði ég hvort þetta þýddi ekki að hugsanlegt álver á Bakka væri úti vegna losunarheimilda og umfangs í hagkerfinu. Í öðru lagi hvort þetta væri ekki þannig að öll hin nýja stóriðja, mengunarminni eða mengunarlaus jafnvel, sem við höfum kallað stundum sætu stóriðjuna að gamni okkar, á orkusvæðinu suðvestanlands, sé ekki hreinlega búin nema þá að veitt verði til hennar rafmagn annars staðar að en frá jarðhitaorkuverunum á Reykjanesskaga og nágrenni. Þá væri auðvitað fyrst spurt um þær áætlanir sem uppi eru um neðri hluta Þjórsár. Um þetta fjallaði meiri hluti iðnaðarnefndar alls ekki, þar er ekkert um orkukosti eða möguleika á annarri orkufrekri atvinnustarfsemi, gagnaverum, sólkísilverksmiðjum eða álíka. Þar er ekkert um Þjórsá neðri sem sumum hefði þó þótt tilefni til miðað við mannaskipanina í nefndinni þegar álitið þar var afgreitt.

Í níunda lagi talaði ég svolítið um starfarökin, ég kallaði það „blackmail“ á ensku slangurmáli vegna þess að „fjárkúgun“, íslenska orðið, dugar ekki yfir það. Þegar verkefni af þessu tagi er fundið út reyna menn að reikna út sem allra glannalegast hvað þeir geta þá framleitt mörg störf og vegna þess að ekki er borið saman við neina aðra kosti eru menn nánast „blackmailaðir“ með því: Ætlar þú að vera á móti 300 störfum, 500 störfum, 8.000 störfum eða 11.000 störfum? Var það ekki sú tala sem hv. þm. Árni Johnsen nefndi í gær, sem er glannalegastur glannanna?

Ég spurði í þessari ræðu minni hvort ekki væru þá sömu rök á bak við að geyma geislavirkan úrgang í Loðmundarfirði eða bjóðast til að hafa Gvantanamó-fangelsið í Hnífsdal. Um þetta er svo sem engin umfjöllun frá nefndinni nema þá að telja upp sömu störfin þannig að hún situr við sama keip þar og sýnir ekki þann frumleika sem maður hefði kannski ætlast til af vandaðri vinnu í þessari nefnd.

Í tíunda lagi spurði ég sérstaklega um stöðu Century Aluminum sem er það fyrirtæki sem hér um ræðir vegna þess að Ágúst Þórhallsson hafði þá skrifað á vefsíðuna amx grein sem hét þessu nafni: Munu lánardrottnar Century Aluminum taka yfir Norðurálverkefnið?

Þar við bætast auðvitað nýlegar fréttir af gengi Alcoa og fréttir um álverð og stöðu álframleiðslunnar sem lesa má um í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur fram að sjaldan eða aldrei hafa verið til jafnmiklar álbirgðir í heiminum og Kínverjar safna nú sérstaklega upp áli hjá sér sem þeir ætla svo að setja út á markað þannig að það er engin von til þess að álverð hækki í náinni framtíð og ósennilegt að álfyrirtækin vilji leggja út í ný ver. (Gripið fram í.)

Þá komum við að lokum að ellefta atriðinu sem ég spurði um á sínum tíma, samningurinn er hér sagður, fram og aftur í þessum deilum milli einstakra stuðningsmanna og hópa af þeim hér á þinginu og í samfélaginu, forsenda Helguvíkurálversins. Menn segja hér, eins langir og stuttir og þeir eru, að það sé beinlínis beðið eftir þessari samþjöppun, menn bíði með öndina í hálsinum eftir því að Alþingi Íslendinga komi þessum samningi í gegn. Þá standi jakkafataklæddir menn á flugvöllum Evrópu og Ameríku með gljáandi leðurklæddar stresstöskur með fullt af peningum, með 400 milljarða í vasanum að bíða eftir í farsímanum sínum að Alþingi Íslendinga hafi samþykkt þetta hér. Það er mikil ábyrgð að halda þessu fram og segja jafnframt að þegar þetta verður samþykkt hér á þinginu verði atvinna yfirfljótandi á Suðurnesjum með þúsundum afleiddra starfa og gríðarlegum kaupum á vöru og þjónustu um land allt. Það er mikil ábyrgð að halda þessu fram, forseti. Sömu stjórnmálamenn verða þá líka að æfa sínar ræður sem þeir ætla að flytja eftir tvo mánuði, hálft ár, við næstu kosningar ef þetta gerist ekki og það kemur í ljós að þetta frumvarp skiptir engu máli. Þetta er síðasta málið á síðasta efnisfundi þingsins á síðasta degi þessa mikla tíðindavetrar og samt vita allir í raun að þessi afgreiðsla skiptir ekki máli fyrir sjálft verkefnið, nánast engu máli. Því miður ræðst það ekki hér á Alþingi hvort þetta verður að veruleika, því miður. Menn geta blásið sig út í ræðustóli, barið sér á brjóst í fjölmiðlunum og þakkað sér þennan mikla árangur en þetta ræðst bara ekki hér.

Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi og frambjóðandi Samfylkingarinnar, snjall og góður drengur af Dalaættum, hefur sagt þetta betur en ég. Ég ætla að ljúka ræðu minni með tilvísun í hans orð á netinu, með leyfi forseta:

„… það er búið að tala framkvæmdina svo mikið upp að það er pólitískt erfitt — einkum fyrir frambjóðendur í kjördæminu — að taka á málinu af skynsemi. Fáir vilja gefa færi á sér sem stjórnmálamanninum sem brá fæti fyrir 4.000 þúsund störf. Eða voru þau kannski orðin 8.000?

Þetta kann að vera klók afstaða fyrir stjórnmálamann. Og þó.

Þegar búið er að byggja upp miklar væntingar hjá kjósendum um fleiri þúsund störf verða vonbrigðin mikil þegar öllum er ljóst að ekkert verður af framkvæmdum. Verra verður það þó þegar kemur á daginn að af því það var búið að binda alla virkjanlega orku og áætlanir í áformum um Helguvíkurálver missa íbúar í Reykjanesbæ, Grindavík og Þorlákshöfn af gríðarlega mikilvægum tækifærum. Smærri verksmiðjum í umhverfisvænum iðnaði sem skapa mun fleiri störf og meiri virðisauka á hvert MW og staðnum betri ímynd.“

Þetta var Dofri Hermannsson. Mörður Árnason segir hér:

Meiri hluti iðnaðarnefndar hefur gefið út álit sem er óvandað, þar sem ekki er tekið á þeim hlutum sem er hægt að ætlast til að þingnefndir taki á í máli af þessari stærð. Það er ósköp einfalt, meiri hluti iðnaðarnefndar eða aðrir flutningsmenn þessa máls hér eða á Suðurnesjum eða í samfélaginu hafa ekki breytt afstöðu minni til frumvarpsins sem hér liggur fyrir.