136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:39]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir afar efnismikla ræðu þar sem kom fram fjöldinn allur af nauðsynlegum upplýsingum þegar þessu máli er fylgt úr hlaði á lokasprettinum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að einu vegna þess að það vill svo til að einn af stóru flokkunum á Alþingi er einmitt flokkurinn sem hv. þingmaður situr fyrir á Alþingi og ég veit að hv. þm. Mörður Árnason og félagi hans sem hann nefndi í ræðu sinni oftar en einu sinni, Dofri Hermannsson, skrifuðu fyrir Samfylkinguna stefnu í umhverfismálum fyrir síðustu kosningar 2007, stefnuna Fagra Ísland. Mig langar til að vita hvort hv. þm. Mörður Árnason lítur svo á að sú umhverfisstefna sé nú með þessum gerningi og stuðningi Samfylkingarinnar við hann orðin að marklausu plaggi og þýðingarlausu eða þýðingarlitlu, hafi það plagg einhvern tíma haft einhverja þýðingu.