136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kaus í þessari ræðu að flytja mín sjónarmið. Það vill svo til að þau njóta mikils stuðnings innan Samfylkingarinnar bæði í flokknum sjálfum og reyndar í þingliði Samfylkingarinnar og ekki síður meðal stuðningsmanna, en um daginn kom í ljós í könnun að meiri hluti almennings hafði tekið mark á þeim áróðri sem hafður hefur verið í frammi. Að vísu studdi meiri hluti stuðningsmanna Samfylkingarinnar álverið en um 44% stuðningsmanna hennar voru á móti því.

Ég tel ekki að umhverfisstefna okkar sem við höfum kennt við Fagra Ísland sé úr gildi fallin með þessum gerningi hér, þessu vandræðamáli sem Samfylkingin tók í arf frá síðustu ríkisstjórn og VG hefur ákveðið að láta fara í gegnum þingið af pólitískum ástæðum sem ekki eru kannski fagrar en ákaflega skiljanlegar.

Fagra Ísland gerði ráð fyrir því að við felldum þessi átök og eðlilegar deilur um nýtingu orkuauðlindanna í ákveðinn farveg með vandaðri rammaáætlun sem nú heitir Um vernd og nýtingu náttúrusvæða, og lagði fram lista yfir þau svæði sem væri sjálfsagt að taka út fyrir þann sviga og ákveðna aðferðafræði í bæði náttúruverndarmálum og loftslagsmálum sem enn gildir. Ég skal hins vegar viðurkenna að ég átti ekki von á því þegar við Dofri settumst niður að beiðni þáverandi formanns flokksins og bjuggum til uppkast að þessari stefnu að ég stæði hér í þeim sporurm að þurfa að horfa upp á þessa álverssamþykkt að aðeins tveimur árum liðnum.