136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:42]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef nokkra samúð með hv. þingmanni að hann skuli nú standa hér í ræðustóli og flytja innblásna ræðu, vel samda, það var mikil vinna lögð í ræðuna, og hann skuli þurfa að viðurkenna það hér fyrir þingi og þjóð að stór hluti kjósenda sem kýs flokkinn skuli vera sama sinnis. Ég verð að segja það að Samfylkingin tók ekki þetta mál í arf frá síðustu ríkisstjórn óbeðin. Hún ákvað það upp á eigin spýtur að taka málið í arf og í fóstur og koma því í gegnum þingið.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð ákvað hins vegar að leggjast ekki gegn því að málið yrði tekið í gegnum ríkisstjórn. Hvað það kann að hafa vegið þungt á metunum við myndun síðustu ríkisstjórnar, þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, skal ég ekki segja, um það veit ég ekki, en það er skjalfest að Vinstri hreyfingin – grænt framboð formúleraði málið þannig að það var ekki lagst gegn því að iðnaðarráðherra fengi að taka málið í gegnum ríkisstjórn. Stuðningur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þetta mál og þingmanna þess flokks hefur alla tíð verið ljós og hann á eftir að koma í ljós í atkvæðagreiðslu á eftir. En eins og ég segi, mitt sjónarmið er það að það leiki nokkur vafi á umhverfisstefnu Samfylkingarinnar eftir þann gerning sem hér er að fara í gegn með meirihlutastuðningi Samfylkingarinnar.