136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:00]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir andsvarið. Það er tvennt sem kemur þar fram — eða þrennt í raun, hann bregst ekki sem fóstri hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar og svarar fyrir hann hér. Það er góður greiði. Ég fagna því að hæstv. ráðherra vill að orkan verði nýtt sem næst upprunanum og í heimahéraði. Jafnframt kemur fram í þessu ágæta andsvari að hæstv. ráðherra geti hugsað sér að virkja neðri hluta Þjórsár og ég held að það sé þessari þjóð og samfélagi okkar til góðs að við nýtum þá orku. Það er einhver hagkvæmasti orkukostur sem við eigum að nýta rennslisvatnið í Þjórsá þar sem búið er að byggja upp alla miðlunina. Það eru rennslisvirkjanir sem kosta lítið og þessi orka verður okkur gjöful og góð.