136. löggjafarþing — 135. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:32]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Sem aldrei fyrr er grundvallaratriði að efla atvinnusköpun í landinu til heilla heimilum og atvinnulausum svo og þjóðinni í heild. Nær þúsund manns misstu óvænt vinnu á Suðurnesjum fyrir nokkrum missirum og álver í Helguvík mun veita 400 störf í frumframleiðslu en alls 1.100 störf með afleiddum störfum.

Á byggingartíma verða til á þriðja þúsund störf á Suðurnesjum og víðar að loknum tveimur áföngum af fjórum. Með 180.000 tonna framleiðslugetu er stefnt að fullvinnslu úr áli sem getur skapað hundruð nýrra starfa og bæjarstjórnarmeirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hefur nú þegar hafið undirbúning á framvindu þess möguleika. Meðal annars á þessum forsendum segjum við sjálfstæðismenn já.