136. löggjafarþing — 135. fundur,  17. apr. 2009.

þingfrestun.

[20:39]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Háttvirtir alþingismenn. Nú er komið að lokum síðasta þingfundar þessa þings. Vegna þess mikla efnahagsáfalls sem þjóðin hefur orðið fyrir voru þeir flokkar sem standa að ríkisstjórninni sammála um það við myndun hennar að efna sem fyrst til almennra alþingiskosninga þannig að Alþingi og ríkisstjórn hefðu skýrt umboð í ljósi breyttra aðstæðna. Þær kosningar verða 25. apríl nk. og þann dag rennur jafnframt út það umboð sem við alþingismenn fengum í kosningunum fyrir tæpum tveimur árum.

Það mátti sjá strax á fyrsta degi þessa löggjafarþings að það yrði sögulegt. Sú varð og reyndin. Efnahagshrunið og sú ólga sem varð í þjóðfélaginu í kjölfar þess setti skýrt mark á þingstörfin. Umbrotin sem urðu í haust leiddu til þess að á þingi varð að afgreiða mikilvæg þingmál með skjótum hætti til að takast á við þann bráðavanda sem við blasti. Ber að þakka þingheimi öllum fyrir samstillt og skjót viðbrögð á hinum örlagaríku haustmánuðum. Á vetrar- og vorþinginu var áfram tekist á við brýn viðfangsefni sem við blöstu í kjölfar bankahrunsins. Hefur mikill fjöldi þingmála verið afgreiddur á vorþingi með það að markmiði að leysa vanda heimila og fyrirtækja. Má segja að stór hluti þeirra laga sem afgreidd hafa verið á þessu þingi tengist þeim efnahagsáföllum sem við höfum gengið í gegnum.

Þá verður þessa þings ekki síður minnst fyrir það að stjórnarskipti urðu 1. febrúar sl. þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók við. Er þetta í fyrsta sinn síðan 1979, þ.e. í heil 30 ár, sem minnihlutastjórn er við stjórnvölinn. Sömuleiðis eru 30 ár liðin frá því að þing var síðast rofið fyrir mitt kjörtímabil. Einnig verður að nefna að aldrei hefur Alþingi setið að störfum jafnnærri alþingiskosningum og nú hefur orðið. Það er því ljóst að þetta þing mun eiga sinn sess í sögubókum.

Þrátt fyrir að þingstörfin hafi staðið skemur en á hefðbundnu þingi vegna þingrofsins hafa afgreidd þingmál í reynd verið litlu færri en á öðrum reglulegum þingum. Alls voru afgreidd 100 frumvörp sem lög og jafnframt hafa verið samþykktar 13 þingsályktanir. Ég vil í því sambandi sérstaklega vekja athygli hv. alþingismanna á því að á þeim stutta tíma sem minnihlutastjórnin hefur setið hafa fleiri nefnda- og þingmannafrumvörp verið afgreidd á Alþingi en sést hefur um langt árabil. Afgreidd frumvörp frá nefndum eru 17 og frá þingmönnum eru þau fimm. Að þessu leyti hefur sú breyting að hér starfar minnihlutastjórn sett mark sitt á störf Alþingis. Þetta er vonandi vísbending um aukið frumkvæði Alþingis í lagasetningu.

Kosningar eru ávallt tímamót og við lok þessa kjörtímabils munu margir alþingismenn hverfa af þingi. Sumir hafa ákveðið að bjóða sig ekki fram til endurkjörs, aðrir hafa ekki hlotið framgang í prófkjörum og enn aðrir eiga ekki afturkvæmt hingað í þennan sal eins og gerist og gengur.

Í þeim hópi alþingismanna sem hafa ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri er forveri minn í embætti forseta Alþingis á þessu kjörtímabili og á þessu þingi, Sturla Böðvarsson. Hann hverfur nú af þingi eftir 18 ára þingsetu. Ég þakka honum fyrir góð og farsæl störf hans við stjórn þingsins og þá forustu sem hann hefur veitt í því að efla þingið. Ég þakka honum einnig góð kynni um langt árabil og óska honum alls hins besta í framtíðinni.

Í vor hverfa af þingi margir forustumenn flokkanna með langa þingreynslu að baki. Í þeim hópi eru einstaklingar sem gegnt hafa trúnaðarstörfum á Alþingi og aðrir sem þingflokkarnir hafa falið ráðherrastörf. Við höfum áður kvatt Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, og Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi utanríkis- og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og í fyrrahaust kvöddum við Guðna Ágústsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins. Þá lætur nú af þingmennsku Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. Vil ég fyrir hönd þingheims óska Ingibjörgu Sólrúnu góðs bata í þeim veikindum sem hún á við að stríða og óska henni alls hins besta í framtíðinni.

Nokkrir þingmenn sem hafa verið í forustu á Alþingi og ríkisstjórn hafa tilkynnt að þeir muni ekki sækjast eftir endurkjöri; en í þeim hópi eru fyrrverandi ráðherrar, þeir Árni M. Mathiesen, Björn Bjarnason og Magnús Stefánsson, enn fremur Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, og Kristinn H. Gunnarsson, 5. varaforseti Alþingis sem tvívegis áður var formaður þingflokks. Auk Kristins láta nú tveir aðrir varaforsetar af þingmennsku. Það eru þau Einar Már Sigurðarson og Guðfinna S. Bjarnadóttir. Ég þakka þeim og öðrum varaforsetum fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins. Þá vil ég nefna að nú lætur af þingmennsku Ellert B. Schram sem er aldursforseti þingsins að lífaldri. Hann tók fyrst sæti á Alþingi 1971, fyrir tæpum fjórum áratugum, og hefur tekið sæti á Alþingi með hléum þrisvar sinnum.

Öllum þessum þingmönnum og öðrum þeim sem láta af þingmennsku og ég hef ekki nefnt þakka ég fyrir störf þeirra í þágu þings og þjóðar og óska þeim alls hins besta á komandi árum.

Oft heyrast þær raddir að það sé mikilvægt fyrir lýðræðið að veruleg endurnýjun verði í þingmannahópnum við hverjar alþingiskosningar. Reyndin er sú að talsverð endurnýjun verður í kjölfar kosninga og e.t.v. meiri en flestir gera sér grein fyrir. Á undanförnum áratugum hefur endurnýjun í þingmannahópnum þannig verið að jafnaði hátt í 30%. Stundum hefur hún verið áberandi mikil eins og 1991 þegar 25 nýir þingmenn komu til þings, nærri 40% þingmannahópsins. Við síðustu alþingiskosningar, vorið 2007, voru nýliðar litlu færri, 24. Margt bendir svo til þess að veruleg breyting verði á skipan Alþingis eftir þær kosningar sem nú fara í hönd.

Þótt erfitt sé og ekki viðeigandi að spá í úrslit komandi kosninga má gera ráð fyrir að meira en helmingur þingmanna á næsta þingi muni hafa tveggja ára þingreynslu eða skemmri. Það má taka undir þau sjónarmið að regluleg endurnýjun á Alþingi sé góð og mikilvæg, en hitt skiptir ekki síður miklu að samfella sé í starfi Alþingis og að mikilvægi reynslunnar sé ekki vanmetið.

Ég heiti einnig á alþingismenn og öll þau stjórnmálasamtök sem nú leita eftir stuðningi kjósenda og ganga til leiks með orðsins brand að vopni að heyja góða og heiðarlega kosningabaráttu sem megi verða okkur öllum til sóma.

Að lokum þakka ég alþingismönnum og starfsfólki Alþingis fyrir gott samstarf þann tíma sem ég hef gegnt starfi þingforseta.