137. löggjafarþing — 1. fundur,  15. maí 2009.

rannsókn kjörbréfa.

[16:00]
Horfa

Frsm. kjörbn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Kjörbréfanefnd fundaði á meðan hléi stóð og álit nefndarinnar og tillögum hefur verið dreift á fundinum.

Nefndin fór yfir kjörbréf þau sem landskjörstjórn gaf út hinn 4. maí sl. í framhaldi af alþingiskosningum þeim sem fram fóru hinn 25. apríl sl.

Enn fremur tók nefndin til umfjöllunar bréf dómsmálaráðuneytisins, dags. 7. maí sl., en því fylgdu ágreiningsseðlar úr tveimur kjördæmum, Reykjavíkurkjördæmi suður og úr Suðurkjördæmi í lokuðu umslagi. Var þar um að ræða 7 ágreiningsseðla úr Reykv. s. og höfðu tveir þeirra verið úrskurðaðir ógildir en fimm gildir. Þeir seðlar sem úrskurðaðir höfðu verið ógildir voru með líkum hætti. Á öðrum þeirra hafi fyrst verið krossað við tiltekinn framboðslista en það síðan að mestu strokað út og merkt við annan skýrlega. Í hinu tilfellinu hafði verið reynt að strika yfir fyrri krossinn og krossa síðan skýrlega við annan listabókstaf.

Þrír seðlar merktir listanum S voru þannig að á tveimur þeirra var gerður hringur um nöfn tiltekinna frambjóðenda en vilji kjósenda að öðru leyti skýr og höfðu þau verið úrskurðuð gild. Á öðrum þeirra var krossað við nöfn allra frambjóðenda á S-listanum utan eins en ekki við listabókstafinn sjálfan.

Þá voru tvö atkvæði, annars vegar þar sem eins og af gömlum vana hafði utankjörfundaratkvæði verið skrifaður listabókstafurinn G en síðan strikað skýrlega yfir hann og skrifað skýrt og greinilega V. Þá var annað utankjörfundaratkvæði þar sem var stimplaður á listabókstafur Framsóknarflokksins og nafn efsta manns í kjördæminu síðan skrifað á seðilinn og jafnframt strikað yfir það.

Þessum seðlum fylgdi endurrit úr gerðabók yfirkjörstjórnar og sömuleiðis þeim eina seðli sem kom úr Suðurkjördæmi en það var utankjörfundarseðill sem dæmdur hafði verið ógildur og háttaði þannig til að þar var skrifaður listabókstafurinn U sem, eins og þingmenn vita, var áður bókstafur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Því miður hefur við framkvæmd kosninga, einkum utankjörfundarkosninga nokkrum sinnum borið á því að upplýsingar með þeim staf sé enn þá að finna á kjörstöðum og því er um kunnugleg mistök að ræða.

Það varð niðurstaða kjörbréfanefndar að öll þessi átta atkvæði skyldu úrskurðast gild á grundvelli 100. gr. laga um kosningu til Alþingis, samanber 101. gr. enda vilji kjósenda skýr í samræmi við ákvæði þessara laga, nr. 24/2000.

Nefndin hefur gengið úr skugga um að atkvæði munu ekki hafa áhrif á úrslit kosninganna en það leiðir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn, D-listinn í Reykv. s. fær tveimur atkvæðum meira en listi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, V-listinn í Suðurkjördæmi einu atkvæði.

Þá tók nefndin fyrir kæru vegna kosninganna samkvæmt bréfi dómsmálaráðuneytisins frá 1. maí sl., grundvallaður 118.–120. gr. laga nr. 24/2000. Í kæru þeirra er krafist ógildingar á kosningu allra frambjóðenda á öllum framboðslistum í öllum kjördæmum í alþingiskosningunum 25. apríl sl. sem kosningu hlutu og er hún reist á því sjónarmiði að í 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem jafnræði manna er tryggt að gengið sé gegn henni eftir misvægi atkvæða eftir kjördæmum og því eigi að úrskurða kosningarnar í heild sinni ólögmætar.

Í 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að verði misvægi meira en svo að nemi meira en helmingi skuli landskjörstjórn breyta þingmannafjölda kjördæma þannig að ekki sé farið yfir þau mörk. Í ljósi þess lítur nefndin svo á að stjórnarskrárgjafinn sjálfur hafi heimilað ákveðið misvægi og sérákvæði þetta gangi því framar 65. gr. Því séu ekki rök eða lagalegar forsendur til þess að úrskurða kosningarnar ólögmætar en nefndarmenn voru einróma um mikilvægi þess að jafna atkvæðisrétt í landinu.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, fulltrúi Borgarahreyfingarinnar, ritar á álitið með fyrirvara og lýsir þar sig sammála í meginatriðum efni nefndrar kæru og sé það mannréttindabrot, það misvægi sem hún sem kjósandi í Suðvesturkjördæmi megi við núverandi skipan þola.

Á grundvelli 46. gr. stjórnarskrárinnar, í samræmi við hana og í samræmi við 5. mgr. 1. gr. og jafnframt 5. gr. laga um þingsköp Alþingis leggur því kjörbréfanefnd til að kjörbréf þau sem til umfjöllunar voru verði samþykkt og kosningarnar gildar. Fyrir þá aðalmenn og varamenn á Alþingi sem á eftir koma og sjá menn af álitinu þann lista yfir kjörna alþingismenn og varaþingmenn sem þar fylgir en sá sem hér stendur treystir sér ekki til að leggja á minnið allan þann fjölda nafna en biður hv. þingmenn um að líta yfir listann sjálfir. Álit þetta og tillögur eru gerðar á fundi nefndarinnar í Reykjavík 15. maí 2009.