137. löggjafarþing — 1. fundur,  15. maí 2009.

ávarp forseta.

[16:19]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Ég þakka hæstv. starfsaldursforseta, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, árnaðaróskir í minn garð og alþingismönnum það traust sem þeir sýna mér með því að kjósa mig forseta Alþingis. Þetta traust met ég mjög mikils og mun leggja mig fram um að eiga gott samstarf við alla alþingismenn. Ég vænti einnig góðs samstarfs við hið ágæta starfsfólk Alþingis.

Ég býð alla alþingismenn velkomna til starfa á 137. löggjafarþing. Sérstakar hamingjuóskir færi ég þeim alþingismönnum sem nú setjast á þing í fyrsta sinn og bið þeim velfarnaðar í störfum. Að þessu sinni eru nýir alþingismenn fleiri en nokkru sinni áður, alls 27. Þegar við lítum svo til þess að 15 þeirra þingmanna, sem kjörnir voru í fyrsta sinn til Alþingis vorið 2007, voru endurkjörnir nú er ljóst að góður meiri hluti þingmanna hefur tveggja ára þingreynslu eða skemmri. Þetta skapar sérstakar aðstæður. Í slíkri endurnýjun felast mörg tækifæri til breytinga, en mestu skiptir þó í því sambandi að þær breytingar séu til bóta.

Þetta þing er sérstakt fyrir fleira en mikla endurnýjun. Við fögnum því nú að konur hafa aldrei verið fleiri á Alþingi. Þær eru 27, um 43% þingmanna. Konur hafa rofið 35% múrinn og brotist gegnum glerþakið á Alþingi. Þetta er stór áfangi fyrir íslenskar konur og óska ég þeim og okkur öllum til hamingju með þennan mikla árangur. Ég vil þó minna á að áfangi sem þessi er ekki sjálfgefinn og ekki má sofna á verðinum í jafnréttisbaráttunni til að halda honum. Það hefur reynslan kennt okkur. Alþingi Íslendinga skipar sér nú í sveit með þeim þjóðþingum þar sem hlutur kvenna er hvað bestur, Alþingi er þar í 4. sæti.

Ég vil einnig óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum, enda bíða hennar og reyndar okkar allra sem hér störfum erfið verkefni. Sérstaklega óska ég þeim þingmönnum sem stíga nú sín fyrstu spor í ráðherraembætti allra heilla.

Þegar áföll verða af þeirri stærðargráðu sem samfélag okkar hefur mátt þola þarf engan að undra þótt traust á helstu stofnunum samfélagsins bíði hnekki og er Alþingi þar ekki undanskilið. Ég lít því svo á að eitt af mikilvægustu verkefnum okkar verði að endurvinna traust landsmanna til Alþingis sem stofnunar og til okkar sem fulltrúa þeirra. Þar þurfum við öll að leggjast á eitt.

Sem þingforseti mun ég gera mér far um að ýtrustu hagkvæmni verði gætt í öllum rekstri þingsins, enda hefur þrengt að honum.

Við þessar erfiðu aðstæður er jafnframt mikilvægt að við alþingismenn hefjum okkur yfir flokkadrætti og náum víðtækri samstöðu um þær nauðsynlegu ráðstafanir sem verður að gera til að endurreisa samfélag okkar og tryggja að við getum búið við þá velferð sem við viljum skapa landsmönnum.

Í því mikla umróti sem orðið hefur í þjóðfélagi okkar í kjölfar bankahrunsins hefur verið sterk krafa um aukið gegnsæi á öllum sviðum. Slíkt er eðlilegt og hefur Alþingi m.a. brugðist við þessu með því að samþykkja reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum þeirra utan þings.

Sérfræðinganefnd starfar á vegum forsætisnefndar Alþingis að því að gera úttekt á öllum þeim þáttum er varða eftirlit Alþingis með stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins. Ég vænti þess að sú nefnd skili okkur skýrslu síðar í sumar. Áþreifanlegt vitni um aukna áherslu á eftirlitsþátt þingsins eru opnir nefndafundir sem hófust í fyrrahaust. Ég hef mikinn áhuga á því að efla þennan þátt í störfum Alþingis, enda geta slíkir fundir stuðlað að því að styrkja eftirlitshlutverk þess.

Á undanförnum árum hafa ýmsar breytingar verið gerðar á starfsháttum Alþingis í því skyni að gera þingið að fjölskylduvænni vinnustað, vinnustað þar sem ætlast er til sams konar vinnulags og almennt tíðkast í þjóðfélaginu. Ég tel mikilvægt að vinna áfram á þessari braut og hyggst beita mér fyrir því að þingflokkarnir skipi nú þegar vinnuhóp til að endurskoða vinnuskipulag og fundartíma Alþingis. Hópurinn skili tillögum til mín og forsætisnefndar Alþingis síðar í sumar, þ.e. fyrir haustþing.

Ég endurtek að lokum þakkir til þingheims fyrir að fela mér embætti forseta Alþingis. Það er von mín að ég megi eiga gott samstarf við alla hv. þingmenn.