137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Góðir áheyrendur. Nýafstaðnar kosningar fóru fram í kjölfar mikilla umbrota í íslensku efnahagslífi og nú hefur dómur kjósenda fallið. Minnihlutastjórnin sem reiða þurfti sig á stuðning framsóknarmanna stendur nú á eigin fótum eftir kosningarnar og ég óska henni velfarnaðar. Það er svo sem ekkert tilefni til bjartsýni. Ríkisstjórnin hefur lagt fram stjórnarsáttmála upp á 18 blaðsíður en hann svarar því miður ekki þeim spurningum sem helst brenna á íslensku þjóðinni. Svörin koma heldur ekki fram í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra.

Og enda þótt fram undan séu bjartir og fallegir sumardagar og vorinu fylgi bjartsýni og nýr kraftur, fylgir því líka óþreyja. Vinnusöm, ung og kraftmikil þjóð kallar á markvissar aðgerðir til bjargar störfunum í landinu. Hún kallar á skýr svör um aðgerðir vegna greiðsluvanda heimilanna og hún krefst þess að nú verði lagður grunnur að nýrri lífskjarasókn.

Virðulegi forseti. Um þessar mundir er oft rætt um mikilvægi gagnsæis í öllum málum. Hæstv. forsætisráðherra nefndi það í sínu máli. Ég er sammála því að nú er sérstaklega brýnt að aðgerðir stjórnvalda séu gagnsæjar og öll umræða opin og lýðræðisleg. Í gagnsæi fellst m.a. að tala um hlutina eins og þeir eru. Þegar boðaðar eru fyrningar á aflaheimildum er það ekki sjálfsögð og eðlileg kerfisbreyting sem útgerðin í landinu getur vel lagað sig að án vandkvæða. Nei. Þegar betur er að gáð stendur eftir lítið annað en að hér er um þjóðnýtingu að ræða. Það er stefna sem setur útgerðina í landinu í algjöra óvissu, setur starfsgreinina í uppnám og allt tal um samráð og samstöðu með þeim sem í hlut eiga eru orðin tóm þegar þessi stefnumarkandi ákvörðun hefur þegar verið tekin.

Nú þegar er orðinn skaði af þessari stefnu því að um leið og málið kom á dagskrá voru öll langtímaplön lögð til hliðar hjá útgerðaraðilum og við tók skammtímahugsun. Það sem ríkisstjórnin býður útgerðinni er sem sagt þetta: Óvissa, einmitt nú þegar kallað eftir aðgerðum sem veita öryggi og skjól. Í öðru orðinu er talað um þjóðarsátt, í hinu er talað um þjóðnýtingu.

Hæstv. forsætisráðherra vill hefja stjórnmálin yfir gamaldags skotgrafarhernað. Að gefnu tilefni vil ég taka fram að við sjálfstæðismenn mætum ekki til þings til að rífa allar hugmyndir ríkisstjórnarinnar niður með bölmóð og svartsýni að leiðarljósi. Nei. Sannarlega hefur sjaldan verið meiri þörf fyrir uppbyggilega, yfirvegaða umræðu hér á þinginu. Hér þurfa að eiga sér stað markviss skoðanaskipti um lausnir og viðbrögð í erfiðri stöðu.

Krafan um uppbyggilega umræðu er gagnkvæm. Það þýðir að ráðherrar og stjórnarliðar allir verða að hætta að stimpla alla þá sem hafa uppi gagnrýni á fyrningarleiðina sem varðhunda sægreifanna í landinu. Það er ekki málefnaleg nálgun við þetta mikilvæga mál. Það er rétt að leita leiða til að þróa fiskveiðistjórnarkerfið, þróa það áfram og bæta úr þeim ágöllum sem þar finnast. En við munum sannarlega bregðast við af krafti þegar teflt er fram hugmyndum sem varða grunnatvinnuveginn í landinu og setja allt í loft upp. Helstu rökin fyrir fyrirhugaðri kerfisbreytingu eru þeir gallar á kerfinu sem að langmestu leyti eru nú hluti af fortíðinni, þ.e. að ýmsir aðilar seldu sig út úr greininni. Það er því eins og vinstri stjórnin sé föst í fortíðinni í þessu máli sem og í öðrum.

Réttast væri að spyrja: Er þessi fyrirhugaða kerfisbreyting leið til betri nýtingar framleiðsluþáttanna? Skapar hún meiri verðmæti úr sjó? Verður umgengni um stofnana betri og kerfið réttlátara? Svarið við þessu er nei.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur haft tíma frá því í byrjun febrúarmánaðar til að skýra frá nauðsynlegum aðgerðum í ríkisfjármálum. Það er því afdráttarlaus krafa að ríkisstjórnin leggi fram án tafar boðaða skýrslu um áætlun í ríkisfjármálum til ársins 2013. Stóra verkefnið okkar hér á þinginu næstu missirin er að koma að nýju á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Til þess mun þurfa að taka erfiðar ákvarðanir og það er engum til gagns að slá því í sífellu á frest. Við sjálfstæðismenn munum styðja allar skynsamlegar tillögur og munum sýna fulla ábyrgð þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir á þessu sviði.

Eins og sakir standa er sá trúverðugleiki sem áður var stefnt að með samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í vissu uppnámi. Sjóðurinn dregur svo mánuðum skiptir afgreiðslu á láninu sem um var samið. Þessi staðreynd virðist til vitnis um að stjórnvöld hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt samkomulaginu við sjóðinn. Nú dugar ekki lengur fyrir hæstv. fjármálaráðherra að vísa til ríkisstjórnarinnar þarsíðustu eins og hann hefur jafnan gert þegar þessi mál ber á góma í þinginu.

Eigum við ekki að vera sammála því í þessu máli eins og hinum að hér sé gagnsæið best? Hvað er að í samskiptum ríkisvaldsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Er það skortur á trúverðugri stefnu í ríkisfjármálum sem er vandamálið eða er það vandinn við endurreisn bankakerfisins sem hefur tafist? Nú skora ég á ríkisstjórnina að koma með það gagnsæi sem henni er svo tamt að tala um um þessar mundir.

Vinstri stjórnin hefur frá upphafi haft mikil fyrirheit um aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Lítið hefur orðið um efndir og krafa heimilanna um markvissar aðgerðir vex með hverri vikunni. Ríkisstjórnin hefur reyndar viðurkennt að hafa gert ákveðin mistök, einkum að hafa ekki kynnt nægilega vel þær aðgerðir sem ákveðnar hafa verið. En hér er ríkisstjórninni vissulega vorkunn því að það er erfitt að miðla því til almennings sem ekkert er. Að öllu óbreyttu verður vísitölufjölskylda ríkisstjórnarinnar sú sem skopmyndateiknari dró upp í blöðunum um daginn. Þar eru hjón með tvö börn og tilsjónarmann.

Það sem þarf eru einfaldar lausnir, almenn úrræði sem allir sem þörf hafa fyrir geta gripið til án þess að fara fyrir héraðsdóm eða aðrar langdregnar eða jafnvel niðurlægjandi leiðir í kerfinu. Það er hægt að slá greiðslubyrði heimilanna niður um helming vegna húsnæðislána tímabundið án þess að senda alla í ranghala kerfisins eins og stjórnvöld vilja helst gera. Stjórnvöld eiga jafnframt að taka til skoðunar niðurfærslu höfuðstóls lána þar sem aðrar aðgerðir duga ekki og það þarf að gerast án tafar.

Landsfundur sjálfstæðismanna ályktaði um Evrópumálin á þann veg að hagsmunum okkar væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Sú afstaða byggir á því að þótt semja megi um einstök útfærsluatriði og tímabundnar undanþágur standi engir sérsamningar til boða sem koma nægilega til móts við mikilvægustu hagsmuni okkar. Má þar einkum vísa til sjávarútvegs og landbúnaðar. Í ályktun landsfundarins kom jafnframt fram að ef fara ætti í aðildarviðræður skyldi það gert að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef í nokkurn tíma verið þeirrar skoðunar að fyrr en síðar þurfi þjóðin að skera úr um mögulega aðild okkar að Evrópusambandinu. Eftir hrun bankakerfisins og fall krónunnar vegna gjaldeyrishaftanna og þrenginga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem gera stærri íslenskum fyrirtækjum mjög erfitt fyrir er það skylda okkar að gaumgæfa alla þá valkosti sem við stöndum frammi fyrir. En ég vil þó sérstaklega vara við því að stjórnmálamenn spili stöðugt upp meiri væntingar með þjóðinni um þann mögulega aðildarsamning sem okkur stendur til boða.

Hæstv. forsætisráðherra leikur þann leik hér í kvöld, lofar lægri vöxtum strax og aðildarumsókn liggur frammi. Segir samningsstöðu okkar á sviði sjávarútvegs sterka og engan geta sagt til um niðurstöðu samninga um sjávarútveg. Á hvaða forsendum segir hæstv. forsætisráðherra að samningsstaða okkar sé sterk á sviði sjávarútvegs? Jú, vegna þess að við höfum 200 sjómílna landhelgi. Hvað er hér eiginlega átt við? Hvað er það sem gerir stöðu okkar svona sérstaklega sterka af þessari ástæðu einni? Það er óábyrgt að gefa í skyn að í grunninn bíði okkar eitthvað annað í aðildarviðræðum en sú stefna sem Evrópuþjóðirnar hafa nú þegar komið sér saman um.

Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að hún væri óviss um það af þessum ástæðum hvað í boði væri í aðildarviðræðum. Ef einhver velkist í vafa skal ég segja það hér: Það er Evrópusambandið sem er í boði. Það er það sem er í boði ef maður sækir um aðild að Evrópusambandinu. Og hvað segir hæstv. utanríkisráðherra? Jú. Hann óskar umboðs frá þinginu til þess að ganga til viðræðna við Evrópusambandið. Það gerir hann þó með margvíslegum fyrirvörum og áskilur sér rétt til þess að berjast gegn þeim mögulega samningi sem hann sjálfur ætlar að leiða til lykta. Hvað er hér eiginlega átt við? Hvers konar samningur er það sem hæstv. utanríkisráðherra vill alls ekki? Er það kannski samningur um að við göngum inn í Evrópusambandið bara eins og Evrópusambandið er? Væri það hræðilegur samningur fyrir hæstv. utanríkisráðherra? Mundi hann berjast gegn samningi við Evrópusambandið ef við þyrftum að ganga inn í það og gangast undir stefnu þess bara eins og hún er? Hvað er verið að gefa í skyn hér? Og hvar er sannfæringin að baki allri þessari baráttu hjá Samfylkingunni fyrir því að við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga þar inn? Hana er sannarlega ekki að finna í þeim drögum að þingsályktunartillögu sem mér hafa verið kynnt en þó átti ég enga sérstaka von á því að finna sannfæringuna í þingskjali frá Vinstri grænum.

En nú liggur fyrir ákvörðun um að leggja málið fyrir þingið og sú tillaga verður einfaldlega að fá sína þinglegu meðferð. Ég tel að nær hefði verið að leita breiðrar samstöðu um þetta mikilvæga mál áður en yfirlýsingar eru gefnar af ríkisstjórninni um að umsókn verði að fara héðan í júní eða júlí. Nú er sagt að samráð sé haft við aðra flokka. Hvers konar samráð er það að ákveða fyrst hvernig og hvenær málið verður afgreitt og kalla síðan aðra aðila að borðinu?

Góðir Íslendingar. Það er vorhugur í Íslendingum. Það eru jafnan mörg verkefni sem bíða og öll erum við full óþreyju að takast á við þau og það má ekki dragast lengur. Við höfum alla möguleika til að ná okkur fljótt upp úr þessari efnahagslægð, sú unga og vel menntaða þjóð sem býr í þessu landi. Nú er tími til breiðrar þjóðarsáttar. Leggjum áherslu á málin sem sameina þjóðina, ekki þau sem sundra henni. En umfram allt, setjum þau verkefni á oddinn sem varða brýnustu hagsmuni heimila og fyrirtækja, fyrr hefst viðreisnin ekki í íslensku hagkerfi.