137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Alþingi kemur nú saman á mikilli ögurstundu. Sumir mundu reyndar segja að sú ögurstund hafi verið á kjördag og skaðinn sé þegar skeður. Framsóknarflokkurinn mun gera sem best úr þeirri stöðu sem upp kemur hverju sinni og berjast fyrir framfaramálum hvort heldur sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Í þeim miklu erfiðleikum sem þjóðin stendur frammi fyrir er gott að hafa í huga að íslenska þjóðin hefur áður gengið í gegnum mikla erfiðleika og unnið mikil afrek. Þessi þjóð varð raunar til með miklum afrekum sem unnin voru til að leysa vandamál, ekki hvað síst efnahagsvanda. Alla tíð síðan hefur þjóðin þurft að takast á við erfið verkefni en ávallt leyst þau. Aðstæður um aldir hafa gert það að verkum að það var hugsað í lausnum og „að bjarga sér“ er orðið þjóðareinkenni og stór hluti af menningu okkar.

Ekki löngu eftir að forfeður okkar námu hér land komu þeir á fót þessari stofnun, Alþingi. Með því sýndu þeir mikið frumkvæði og nýja hugsun við úrlausn vandamála. Umfram allt sýndu þeir vilja til að leysa málin saman með því að skiptast á ráðum og hugmyndum. Með þessari nýju hugsun tókst fámennri þjóð að byggja upp stórkostlegt samfélag við erfiðar aðstæður. Við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja hefðu stjórnmálamenn átt að vinna saman að lausn vandans, leyfa lýðræðislegri umræðu að njóta sín og ræða tillögur, sama hvaðan þær kæmu.

Þegar síðasta ríkisstjórn sigldi í strand hefði verið langæskilegast að mynda þjóðstjórn. Það var ekki hægt vegna þess að valdsækni Samfylkingarinnar kom í veg fyrir það. Samfylkingin vildi ekki ræða þjóðstjórn nema forsætisráðuneytið kæmi í hennar hlut. Eina lausnin var bráðabirgðaminnihlutastjórn sem þó tók strax að haga sér eins og ráðrík meirihlutastjórn. Ekki var litið við tillögum frá öðrum flokkum, ekki einu sinni tillögum sem stjórnin hafði áður falast eftir. Í stað þess að vinna verkefnin sem voru skilyrði fyrir myndun minnihlutastjórnarinnar var tíminn notaður í kosningaáróður.

Nú, þegar ríkisstjórnin er búin að tryggja sér meiri hluta, eru stjórnarliðar allt í einu farnir að tala um samvinnu og lýðræðisvæðingu. Það væri góður boðskapur ef hugur fylgdi máli en tilefnið er fyrst og fremst vandræðagangur stjórnarinnar með Evrópumálin sem hún hafði þó lofað kjósendum að leysa innbyrðis. Ekki gekk það á eitt hundrað dögum. Þrautalendingin var að ræsa spunavélina og halda því fram að það að láta stærsta ágreiningsmál ríkisstjórnarinnar óafgreitt bæri vott um lýðræðisást, vilja til að fela þinginu meira vald og gefa þingmönnum kost á því að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni óáreittir.

Við skulum rifja upp hvað gerðist fyrir fáeinum vikum þegar tveir þingmenn Framsóknarflokksins, sem voru sammála um eitt af frumvörpum ríkisstjórnarinnar, lögðu ólíkt mat á það hvort það væri þess virði að bíða í tvo daga eftir nýjum upplýsingum. Báðir höfðu mikið til síns máls og ekkert því til fyrirstöðu að þeir greiddu atkvæði í samræmi við ólíkt mat. Við það að þessir þingmenn greiddu atkvæði um aukaatriði máls samkvæmt sannfæringu sinni og að Framsóknarflokkurinn léti slíkt viðgangast fór Samfylkingin gjörsamlega af límingunum. Í fjölmiðlum létu samfylkingarmenn öllum illum látum og hér í þinginu boðaði stjórnin til fleiri neyðarfunda en hægt var að henda reiður á.

Rætt var um að stjórnin væri fallin vegna þess að þingmenn í flokki utan stjórnarinnar lögðu ólíkt mat á aukaatriði í einu stjórnarfrumvarpi — og vel að merkja, það var alltaf talað um afstöðu flokksins. Þingfundum var frestað aftur og aftur og loks var því hótað að þingfundur yrði ekki haldinn fyrr en Framsóknarflokkurinn skilaði málinu úr nefnd. Samfylkingin var tilbúin að taka löggjafarþingið í gíslingu af því að þingmenn fylgdu sannfæringu sinni. Þetta er viðhorf annars stjórnarflokkanna sem nú talar um að virkja vilja þingsins.

Hvað með hinn stjórnarflokkinn? Það eru ekki nema 18 mánuðir síðan formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hæstv. fjármálaráðherra, flutti mikla og skörulega ræðu, eins og honum var svo tamt í sínu fyrra lífi, um mikilvægi þess að treysta stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og þó sérstaklega minni hlutans gagnvart meiri hlutanum. Hann rifjaði upp gömlu góðu dagana þegar reynt var að draga úr ágreiningi meiri hluta og minni hluta með ýmsum ráðum, einkum með því að stjórnarandstaðan tæki forustu í hluta þingnefnda. Hæstv. fjármálaráðherra þóttu hlutir síðan hafa þróast mjög á verri veg og staða þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu hafa veikst á ný. Hann útskýrði að staða Alþingis væri fyrst og fremst mæld út frá réttindum minni hlutans á hverjum tíma. Ráðherrann talaði kröftuglega um mikilvægi þess að stjórnarandstaða kæmi að ákvarðanatöku og jafnvel að forseti kæmi úr röðum stjórnarandstöðunnar. Svo benti hann á þá gríðarlegu lýðræðislegu afturför að í stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks væri í fyrsta skipti nokkru sinni engin einasta trúnaðarstaða í höndum stjórnarandstöðunnar. Ráðherrann bætti svo við:

„Það er dapurlegt að ekki vottar fyrir breytingu þó að Samfylkingin hafi nú tekið sæti í ríkisstjórn, flokkur sem stundum hefur talið sig umfram aðra flokka eiga eignarrétt á hugtakinu lýðræði og viljað ástunda samræðustjórnmál og guð má nú vita hvað.“

Þetta væri öll lýðræðisástin, sagði hæstv. fjármálaráðherra. En ekki virðist aðkoma Vinstri grænna hafa breytt miklu.

Enn er Samfylkingin í stjórn og nú með Vinstri grænum og hvert er viðhorfið til þingsins, samstöðu, dreifingar valds og alls þess sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra talaði svo skörulega fyrir? Hafi stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sett met í að einangra hjá sér vald slær ríkisstjórnin sem nú situr það met. Markvisst er unnið að því að svipta stjórnarandstöðuna sem flestum stöðum. Formennska í nefndum? Ekki að ræða það. Nýja valdstjórnin gengur meira að segja svo langt að kaupa nýjasta flokkinn á þingi til lags við sig til að ná enn fleiri nefndarsætum af stjórnarandstöðunni. Þetta er öll lýðræðisástin.

Sami ráðherra talaði, eins og félagar hans samfylkingarfólkið, mikið um að hjá hinni nýju stjórn yrði almenningi haldið upplýstum um raunverulega stöðu mála, allt ætti að vera uppi á borði. Hann gleymdi bara að nefna að borðið væri í læstu dulkóðuðu leyniherbergi í fjármálaráðuneytinu. Bilið milli orða og gjörða stjórnarinnar birtist þó hvergi jafnglögglega og í viðbrögðum við tillögum frá fólki sem ekki er innvígt, svo ekki sé minnst á það sem kemur frá öðrum flokkum.

Þegar minnihlutastjórnin var mynduð, án þess að hafa sýnt fram á hvernig hún ætlaði að uppfylla skilyrðin um að koma til móts við skuldsett heimili og atvinnulífið, sögðust forsvarsmenn stjórnarinnar ætla að þiggja tillögur frá Framsókn ef okkur þætti ekki nóg að gert. Þegar stjórnin sinnti ekki hlutverki sínu lagði Framsókn fram ígrundaðar tillögur í efnahagsmálum. Þrátt fyrir fyrirheitin hafði stjórnin ekki einu sinni fyrir því að kynna sér tillögurnar og hefur eflaust ekki gert enn.

Ein tillaga var hins vegar valin úr og óhemjukröftum eytt í að snúa út úr henni og reyna að kveða hana niður. Hefði hæstv. forsætisráðherra gefið sér jafnmikinn tíma til að kynna sér tillöguna og hann eyddi í illa ígrundaðar athugasemdir um það sem hann hélt að tillagan gengi út á hefði mátt vinna mikið gagn. Á meðan komu engar lausnir frá stjórninni og hafa ekki komið enn. Sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að skuldaleiðrétting er óhjákvæmileg en ríkisstjórnin heldur áfram að berja höfðinu við steininn. Það má ekki ræða tillögur utanstjórnarflokka.

Í staðinn halda stjórnarflokkarnir áfram að tala fyrir stórundarlegri og raunar stórhættulegri stefnu í efnahagsmálum. Rétt eftir kosningar voru stjórnarflokkarnir truflaðir við samræðustjórnmálin í Norræna húsinu og minntir á gríðarlegan vanda íslenskra heimila. Viðbrögðin voru ekki þau að ræða vandann eða leggja fram nýjar hugmyndir heldur að undrast yfir að fólk þekkti ekki allar þær lausnir sem væru í boði. Undrunin virtist einlæg. Ríkisstjórn Íslands virðist svo úr tengslum við ástandið að hún telur sig hafa lagt til ráð sem raunverulega dugi við vandanum en almenningur geri sér bara ekki grein fyrir því. Eða svo málið sé sett í sögulegt samhengi: Ríkisstjórninni var sagt að í landinu væri fólk sem ætti ekki fyrir brauði og hún spurði af hverju það borðaði ekki bara köku.

Nei, vandinn er ekki sá að fólk þekki ekki lausnirnar sem eru í boði. Það vita líklega flestir nema ríkisstjórnin sem enn er svo upptekin af því að fagna sögulegri valdatöku vinstri manna að hún man ekki til hvers hún var kosin. Reyndar upplýsti stjórnin það þegar hún var mynduð að hún ætlaði að láta kanna stöðu heimilanna og bregðast við eftir því sem þörf væri á. Ætli þjóðin ætti ekki að gleðjast yfir því að stjórnin ætli loksins að kynna sér málið? En hún virðist ein um að vita ekki að þörfin fyrir aðgerðir er nú þegar til staðar. Reyndar var þörfin orðin aðkallandi fyrir 100 dögum því að stjórnin var mynduð til bregðast við þeim vanda sem hún ætlar núna að kanna hvort sé raunverulega til.

Stjórnin ætlar að láta kanna ýmislegt, rannsaka, gera áætlanir og skrifa skýrslur. Áætlanagerð virðist vera eitt helsta atvinnumál ríkisstjórnarinnar. Svo stendur til að nefndir og ráð flokksmanna samþætti áætlanirnar. Hættan er hins vegar sú að ráðstjórnin ráðalausa fylgi áfram þeirri frestunarstefnu sem hún virðist vera föst í. Öll hin svokölluðu ráð snúast um að fresta vandanum, þreyja þorrann þar til allt verður svo gott af sjálfu sér eftir nokkur ár að hægt verður að borga upp tapið með vöxtum. Slíkar aðferðir hafa oft verið reyndar og aldrei haft annað í för með sér en að auka enn á vandann. Leiðir ríkisstjórnarinnar miða allar að því að taka við fjölskyldum og fyrirtækjum eftir að þau komast í þrot. Það er stórhættuleg leið. Ef ekki er gripið til róttækra fyrirbyggjandi aðgerða munu sífellt fleiri heimili og fyrirtæki komast í þrot. Atvinnuleysi eykst, neysla dregst enn saman og enn fleiri fara í þrot og svo koll af kolli. Þessi þróun verður hvorki stöðvuð með aukinni skattlagningu né niðurskurði. Hún verður aðeins stöðvuð með fjárfestingu og aukinni verðmætasköpun og með því að nýta það stórkostlega tækifæri sem við höfum til að ráðast í skuldaleiðréttingu.

Íslendingar hafa meiri þörf en nokkur önnur þjóð til að bregðast við vandanum með afgerandi hætti. Svo vill til að við höfum líka betri tækifæri en nokkur önnur þjóð til að gera það. Ef við gerum það kemst Ísland fyrst út úr heimskreppunni og við höfum þá allt sem þarf til að byggja upp fyrirmyndarsamfélag þessarar litlu þjóðar eða stóru fjölskyldu. Til þess þarf samvinnu og aðgerðir. Fólk sem talar fyrir slíku og hefur valdið verður að sýna í verki að því sé alvara.

Var ríkisstjórninni alvara með að innleiða ný vinnubrögð, að upplýsa almenning um stöðu mála, að jafna hlut stjórnar og stjórnarandstöðu, að koma atvinnulífinu af stað? Var ríkisstjórninni alvara með að slá skjaldborg um heimilin? Var ríkisstjórninni alvara um nokkurn skapaðan hlut annan en að halda völdum? Á meðan ríkisstjórnin heldur völdum mun Framsóknarflokkurinn halda sínu striki. Hann mun halda áfram að leggja til lausnir og veita fyrstu meirihlutastjórn vinstri flokkanna á Íslandi uppbyggilegt aðhald. Ekki veitir af.