137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Það er full ástæða til að byrja á því að óska ríkisstjórninni velfarnaðar og nýjum ráðherrum til hamingju með störfin. Ég held að allar velfarnaðaróskir ættu að vera vel þegnar af ríkisstjórninni vegna þess að verkefnin eru ærin. Og í ljósi þess að ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki tala einu máli held ég að það sé full ástæða til að óska þeim af heilum hug velfarnaðar í komandi verkefnum. Þjóðin á það vissulega skilið að einhverri ríkisstjórn fari að takast einhver ætlunarverk vegna þess að það hefur gengið ansi brösulega á síðustu missirum.

Ég fagna líka ákalli margra hérna um málefnaleg vinnubrögð og vissulega er það rétt að nú þegar 27 nýir þingmenn taka sæti á Alþingi ætti að vera ærið tilefni og grundvöllur til þess að hefja Alþingi til vegs og virðingar og hefja ný vinnubrögð. Ég vona að okkur takist það og ég fagna því að menn ætli að gera það. Við skulum líka hafa í huga að það þýðir ekki að við ætlum öll að vera sammála, við tökum ekki pólitíkina úr pólitíkinni, við erum fulltrúar ólíkra skoðana hér á þingi. Það snýst um að við berum gæfu til og kunnum að takast á hvert við annað á þeim forsendum og ná að ræða málin til lykta. Það snýst líka um að ríkisstjórnarflokkarnir kunni að taka gagnrýni vegna þess að hún verður mikil, eins og ég mun síðar koma að í þessari ræðu.

Ég er sammála ýmsum áformum ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokkurinn fagnar ýmsu. Framsóknarflokkurinn hefur haft frumkvæði að því að fara í ýmsar stjórnsýslubreytingar í lýðræðisátt. Stjórnalagaþingið er t.d. að frumkvæði Framsóknarflokksins og baráttumál hans. Framsóknarflokkurinn mun fagna því að það verði rætt í þingsal og sett á oddinn. Það verður áhugavert að sjá hverjar verða nýju áherslurnar í umhverfisvernd og nýsköpun og hverju þær skila. Það er bara eitt æpandi gap í stjórnarsáttmálanum — held ég örugglega að hann heiti, ég er þó ekki alveg viss — og í stefnuræðu forsætisráðherra, þar er eiginlega ekkert um efnahagsmál. Það vantar allar áætlanir um efnahagsmál, hvernig koma á neyslunni af stað, hvernig koma á fjárfestingum af stað, hvernig á að koma framkvæmdum af stað. Í því liggur vandinn.

Framsóknarflokkurinn sagði fyrir kosningarnar 2007 og uppskar dálitla gagnrýni fyrir: Árangur áfram, ekkert stopp. Nú er enginn árangur og allt er stopp. Það er staðan sem blasir við. Það er ögurstund í íslensku samfélagi. Fjölskyldur horfa upp á hækkandi höfuðstól upp á 20–100% og spurt er: Á þessi höfuðstóll að vera svona? Þetta er fólk sem getur kannski greitt þetta með því að leggja mikið á sig en það gerir ekki mikið annað á meðan. Á ekki að koma til móts við þær streðandi stéttir Íslendinga sem búa við þessi skilyrði sem þeim voru sköpuð án þess að þær lyftu litla fingri? Eina sem fólkið gerði var að kaupa sér íbúð og kannski bíl, kannski ekki einu sinni flatskjá. Á ekkert að gera til að koma til móts við hina stóru millistétt í landinu? Ef við gerum það ekki mun allt staðna.

Hver er stefnan? Rannsökum þetta aðeins. Þetta er ríkisstjórn hinna ósvöruðu spurninga. Það á að gera áætlun um stefnu í ríkisfjármálum. Ég hef aldrei heyrt þennan frasa áður. Það á að gera áætlun um stefnu. Ég hélt að menn gerðu áætlun eða stefnu en það á að gera áætlun um stefnu. Það á að beita sér fyrir því að mótuð verði atvinnustefna. Af hverju á ekki bara að móta atvinnustefnu? Af hverju þarf að beita sér fyrir því eitthvað sérstaklega?

Það er allt hrunið á Íslandi. Fyrirtæki verða gjaldþrota á hverjum einasta degi og það virðist vera sem ríkisstjórnarflokkarnir sem mynduðu minnihlutastjórnina séu enn þá í þeim fasa að þeir eru einhvern veginn að leggja drög að áætlunum um að reisa hér hluti við.

Hver er stefnan út frá gjörðunum? Boðaðar eru áætlaðar stefnur um að auka álögur á fólk sem þegar þarf að berjast í bökkum til greiða skuldir sínar. Það á bara að afskrifa einhvern veginn hjá þeim sem bera sig nógu illa, sem felur í sér gríðarlega neikvæðan hvata í hagkerfinu. Það á að ríkisvæða fyrirtæki, það á að setja þau undir opinbert eignarhaldsfélag á vegum fjármálaráðuneytisins, sem í mínum huga þýðir spilling. Það býður spillingu heim.

Það á að innkalla veiðiheimildirnar á mjög óljósum forsendum. Einhvern veginn eru forsendurnar þær að þeir sem veiða núna séu allir vondir og síðan á að dreifa heimildunum einhvern veginn út aftur. Því hefur alls ekki verið svarað hvernig úthlutunin á að fara fram eftir að allt hefur verið innkallað. Þetta eru skilaboðin til atvinnulífsins, til grunnatvinnuvegar þjóðarinnar.

Það er ekki verið að slá skjaldborg um heimilin, það er verið að slá skjaldborg um skuldirnar í landinu, um kröfuhafana, og það er alvarlegt. Það er líka skortur á gagnsæi. Þó að ég vilji vera bjartsýnn og að ég vonist til að okkur gangi vel á Alþingi að vinna úr þessum málum öllum saman get ég ekki sagt annað en að gjörðir ríkisstjórnarinnar benda greinilega til þess að stefnan sé þó skýrari en orðin gefa til kynna vegna þess að orðin eru býsna óskýr. Hin skýra stefna samkvæmt gjörðunum og þegar allt er saman tekið, virðist vera norður og svo niður, því miður.