137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:55]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Góðir Íslendingar. Við lifum á sögulegum tímum. Við upplifðum hrun efnahagskerfis sem var af mörgum talin forsenda lífsgæða og margir byggðu afkomu sína á. Það hrun hefur haft keðjuverkandi áhrif, áhrif sem sér ekki fyrir endann á og hefur bitnað á þeim sem síst skyldi, fólki sem unnið hefur störf sín af heilindum og áreiðanleika en situr nú eftir skuldum hlaðið, jafnvel atvinnu- og eignalaust.

Í janúar sl. stóð ég fyrir utan þetta hús daginn sem þingið kom saman, með hjartað fullt af sorg og lömuð af skelfingu vegna þeirra atburða sem voru í uppsiglingu. Ég gat ekki hrópað „vanhæf ríkisstjórn“ né barið búsáhöld. Það fylgdi því engin gleði að upplifa mælinn fyllast hjá þjóðinni, verða vitni að skemmdarverkum og ofbeldi og finna að þingið og ríkisstjórnin voru sem í eigin heimi og úr tengslum við raunveruleika okkar sem stóðum hér fyrir utan. En svo fór takturinn að hljóma, þjóðin fann hjartslátt sinn og samstöðu og þeim takti megum við aldrei gleyma.

Í vetur fann ég svo sterkt að Ísland er eyja. Við vorum ein og yfirgefin úti í ballarhafi, úr alfaraleið, úr tengslum við aðrar þjóðir. Við vorum ekki lengur „stórasta“ land í heimi, en hér var stærsta klúður í heimi.

Við erum öll í sama bátnum og nú þarf að róa. Nú skiptir öllu að við sem hér störfum vinnum saman og lærum að treysta hvert öðru á nýjan leik og að við hlustum þegar þjóðin knýr dyra. Hér hrundi heilt samfélag. Langflestir sem hér búa bera enga ábyrgð á því hruni en ætlast er til þess að við berum öll byrðarnar, greiðum samviskusamlega af lánaskrímslum sem stækka og lengjast út í hið óendanlega og afsölum okkur hluta þeirra lífsgæða sem við áttum að venjast. Sátt mun ekki skapast í samfélaginu fyrr en víðtæk rannsókn á bankahruninu hefur farið fram og þeir ábyrgu dregnir fyrir dómstóla. Hér var ekki um eðlilega bankastarfsemi að ræða og svo virðist að hvarvetna sem borið er niður sé maðkur í mysunni. Sárin á þjóðarsálinni munu ekki gróa fyrr en bankahrunið hefur verið gert upp, við vitum hvað gerðist, hvers vegna það gerðist og hvernig við getum komið í veg fyrir að það gerist aftur.

Kæra þjóð. Við eigum vonandi aldrei eftir að upplifa annað eins efnahagslegt fárviðri og geisaði hér síðasta haust en staðan er ekki alslæm. Í hruninu felst frelsi frá úreltum hefðum og tækifæri sem við munum ef til vill aldrei fá aftur. Nú þarf að byggja upp á nýtt og við ráðum hvernig við byggjum. Undanfarna mánuði hefur samfélagið verið í biðstöðu. Nú skiptir öllu að fólkið í landinu upplifi sig ekki sem fórnarlömb, heldur gerendur. Ríkisstjórnin getur ekki ein og sér skapað þúsundir nýrra starfa en henni ber að tryggja frjósaman jarðveg fyrir frábærar hugmyndir, frumkvæði og þann kraft sem ég veit að býr í brjóstum okkar, kraft nýsköpunar og framkvæmdagleði.

Við erum öll í sama bátnum og nú þarf að róa. Við getum byggt upp fyrirmyndarþjóðfélag ef við hjálpumst öll að, þjóðfélag frelsis og jafnréttis, menningar, sköpunar, áræðni og góðra hugmynda, samfélag þar sem ríkir jöfnuður og friður, samfélag þar sem hjartað slær taktinn. Við megum ekki gleyma því að við erum rík þjóð, menntuð þjóð, við eigum hugvit, auðlindir og menningarverðmæti, náttúru sem fólk vill upplifa, tónlist sem fólk vill heyra, bækur sem fólk vill lesa.

Við getum skapað þjóðfélag sem metur fólk út frá verðleikum en ekki bankabókinni, út frá manngildi en ekki kyni, trú, kynþætti, kynhneigð, hægri eða vinstri. Við getum búið til réttlátt Ísland. Til þess þurfum við að þora að hugsa út fyrir rammann, leita óhefðbundinna lausna, vera róttæk, losa okkur úr viðjum vanans og þora að breyta rétt.

Við í Borgarahreyfingunni erum ekki komin hingað inn í hlýjuna til að standa í argaþrasi heldur til að leggjast á árarnar og róa í þeim takti sem við heyrðum og tókum þátt í að skapa hér fyrir utan. Við viljum vinna að öllum góðum málum en munum gagnrýna ef svo ber undir hvort heldur sem er ríkisstjórnarflokkana eða stjórnarandstöðuna. — Ég þakka áheyrnina.