137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

skýrsla um stöðu íslensku bankanna.

[13:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður er kunnur áhugamaður um þetta mál og talaði þannig fyrir kosningar eins og hann hefði allar þessar upplýsingar undir höndum, ég segi ekki áður en þær voru komnar fram en alla vega áður en þær voru komnar í hendur á þeim sem hann var að ræða málið við.

Staða málsins er einfaldlega sú að nú standa yfir samningaviðræður milli kröfuhafanna og skilanefndanna fyrir þeirra hönd í gömlu bönkunum og nýju bankanna og þeirra ráðgjafa á vegum stjórnvalda sem gæta hagsmuna ríkisins í þessum samningum. Hér er um mikla fjárhagslega hagsmuni að tefla og það sem mestu máli skiptir er auðvitað að reyna að ná samkomulagi um uppgjörið, að það takist samkomulag um þá skilmála sem þarna eru í uppgjöri á milli nýju og gömlu bankanna þannig að komist verði hjá tafsömum deilum eða málaferlum sem mundu augljóslega tefja endanlegt uppgjör þarna á milli og tefja fyrir því að endanlegur efnahagsreikningur nýju bankanna liggi fyrir og þar með að hægt verði að endurfjármagna þá eða fjármagna þá að fullu.

Það var gengið frá því fyrir fram hvernig farið yrði með þessar upplýsingar til að gæta jafnræðis milli aðila. Það var gert á grunni ráðgjafar frá bæði endurskoðunarfyrirtækjunum sjálfum og ráðgjafa stjórnvalda sem er breska ráðgjafa- og lögfræðifyrirtækið Hawkpoint og þessu vinnuferli hefur síðan veri fylgt. Það er að sjálfsögðu mögulegt að veita tilteknar almennar upplýsingar út úr þessu ferli á einhverjum tímapunkti en aðgang að sjálfum grunngögnunum, sem eru andlag samninga um þessa miklu hagsmuni milli aðila, er ekki hægt að veita fyrr en niðurstaða hefur náðst. Ég sé ekki aðrar leiðir færar svo gjarnan sem maður vildi auðvitað að þessir hlutir væru allir uppi á borðum en að fylgja því verklagsferli og þeirri ráðgjöf sem við höfum fengið til að unnið sé að þessum málum á besta mögulegan hátt í þágu hagsmuna þjóðarbúsins.