137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

skýrsla um stöðu íslensku bankanna.

[13:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hvað veldur þessari breytingu á stefnu ríkisstjórnarinnar? Það var tilkynnt á sínum tíma að a.m.k. yrði upplýst um meginniðurstöðurnar í þessari skýrslu og raunar margoft vísað í það að ekki væri hægt að stíga næstu skref fyrr en búið væri að upplýsa um þetta. Hvers vegna er nú ekki einu sinni hægt að upplýsa um meginniðurstöðurnar? Megum við vænta þess í framtíðinni þegar upp koma mál sem ríkisstjórninni þykir af einhverjum ástæðum betra að bíða með þá eigi ekki við þau orð sem hér hafa verið höfð uppi um opna stjórnsýslu og að allt eigi að vera uppi á borðinu? Getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst okkur um það hvers vegna hann getur ekki heimilað það skýrt hér og nú að þingið a.m.k. fái aðgang að þessum upplýsingum?