137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

landbúnaðarháskólarnir.

[13:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, fyrir spurninguna. Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður segir, að ég var andvígur því að skólarnir, Hólaskóli og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri, væru fluttir frá landbúnaðarráðuneytinu til menntamálaráðuneytisins. Ég minnist umræðunnar við fjárlagagerðina fyrir síðustu jól sem við áttum þá, ég og hæstv. þáverandi menntamálaráðherra, um fjárhagsstöðuna þar sem var ljóst að skólarnir voru skildir eftir í uppnámi hvað fjárhagsfyrirgreiðslu varðaði.

Ég er enn þeirrar skoðunar að þessum skólum væri best borgið undir landbúnaðarráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu og ég tala nú ekki um eftir að ég er kominn þangað. Ég tek vel hvatningarorðum hv. þingmanns í þessum efnum. En hvort sem þeir verða fluttir til míns ágæta ráðuneytis eða ekki er ljóst að ég mun beita þeim áhrifum sem ég get til að standa vörð um þessa skóla og einnig sjálfstæði og sjálfsforræði þeirra.