137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

jöklabréf.

[13:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að hið mikla innstreymi erlends fjár hér inn í hagkerfið sem varð á hávaxtatímanum og menn voru mjög andvaralausir gagnvart hefur nú skapað verulegan vanda og verulegan óstöðugleika. Og sú hætta að þetta fé streymi skyndilega til baka hefði augljós og mjög neikvæð áhrif á gengi krónunnar og aðstæður í efnahagslífi okkar.

Hér er þó margt sett saman undir einn hatt og oft kallað almennu nafni jöklabréf. Veruleikinn er sá að það er um alls konar stöður erlendra aðila í íslenskum krónum inni í hagkerfinu að ræða. Þær eru á mismunandi formum, í mismunandi pappírum og til mismunandi langs tíma. Aðeins hluti þess erlenda fjármagns eða þeirrar heildar erlendu stöðu sem er í hagkerfinu eru þessi svokölluðu hreinu jöklabréf sem voru fjárfesting erlendra aðila til að gera út á vaxtamuninn aðallega á tímabilinu 2005–2008.

Útgefendurnir að þessum bréfum, að svo miklu leyti sem þetta eru slíkir pappírar, eru þekktir. Þetta eru stórir þýskir, austurrískir og japanskir aðilar og traustir greiðendur. Það liggur því nokkuð fyrir hverjir eru stærstir sem útgefendur bréfanna en hverjir eru handhafar þeirra í dag er hins vegar ekki jafnljóst, m.a. vegna þess að þau hafa skipt um hendur, skipt um eigendur og færst á milli skuldabréfaflokka.

Varðandi orðróm um að stór hluti þessa fjár kunni að vera í eigu innlendra aðila sem hafi fjárfest í þeim utan lands frá eða flaggað þeim út eins og má orða það, þá er það samkvæmt mínum upplýsingum, sem fyrst og fremst byggja á samtölum við Seðlabankann, ekki svo nema þá í einhverjum mjög óverulegu mæli og sá orðrómur ekki réttur. En ég hef ekki þessi bréf í mínum höndum eða upplýsingar um það nákvæmlega hverjir þeir eru eða hverjir eru handhafar þeirra í augnablikinu. Sá aðili sem hefur best yfirlit yfir það er Seðlabankinn og hann verður að svara fyrir það og upplýsa það (Forseti hringir.) eftir því sem hann getur það á viðskiptalegum forsendum.