137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stofnun opinbers hlutafélags sem hefur það að markmiði að aðstoða fjármálafyrirtæki við endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja. Nægi slík aðstoð og ráðgjöf ekki er með frumvarpinu lagt til að félagið fái heimildir til að kaupa, eiga, endurskipuleggja og selja þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki í samræmi við tilgang þessara laga. Frumvarpið byggist á tillögum í fyrstu starfsáætlun samræmingarnefndar um endurreisn fjármálakerfisins frá 5. febrúar sl. og er 1. mál þessa þings, á þskj. 1, virðulegi forseti.

Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi, á útmánuðum, en varð ekki að lögum fyrir þinglok. Frumvarpið er í öllum meginatriðum óbreytt nema að tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í nefndarálitum efnahags- og skattanefndar auk þess sem gert er ráð fyrir því nú að félagið geti veitt fjármálafyrirtækjum sérhæfða ráðgjöf við þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem unnið er að á þeim vettvangi. Það má því segja að frumvarpið sé orðið opnara og valkvæðara hvað það snertir að eignaumsýslufélagið getur eftir atvikum verið bönkum og fjármálastofnunum til aðstoðar og ráðgjafar um slíka endurskipulagningarvinnu eða yfirtekið þau verkefni og annast um þau sjálft.

Það er ekki er um það að deila að ótvíræði margra atvinnufyrirtækja fyrir íslenskt samfélag sem nú eiga í erfiðleikum liggur fyrir og það er nauðsynlegt að tryggja eins og kostur er að starfsemi slíkra aðila raskist ekki þrátt fyrir yfirstandandi erfiðleika.

Í frumvarpinu er lagt til að Alþingi veiti fjármálaráðherra heimild til þess að stofna sérstakt opinbert hlutafélag um eignaumsýslu þar sem byggð verði upp heildstæð þekking til endurskipulagningar á fjárhags- og rekstrargrundvelli skuldsettra fyrirtækja. Í félaginu verður þannig unnið að fjárhagslegri og rekstrarlegri endurskipulagningu atvinnufyrirtækja með það að markmiði að gera þau sem fyrst rekstrarhæf á nýjan leik og selja þau síðan með gagnsæjum hætti þegar aðstæður verða hagfelldari og þá gjarnan í dreifðri eignaraðild. Ekki er gert ráð fyrir að eignaumsýslufélag þetta taki í sína umsjá mjög mörg fyrirtæki heldur einungis tiltekin þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að slík fyrirtæki, sem yfirtekin væru, sinni svo mikilvægum almanna- eða öryggishagsmunum að stöðvun þeirra um lengri eða skemmri tíma mundi valda verulegri röskun í þjóðfélaginu öllu. Meðal almannahagsmuna í þessu sambandi er átt við þá starfsemi atvinnufyrirtækja sem snúa að nauðsynlegum grunnþörfum samfélagsins eða eru mikilvægir hlekkir í innviðum þess. Með öryggishagsmunum er t.d. átt við starfsemi sem snýr að fæðuöryggi þjóðarinnar, fjarskiptum, flutningi fólks eða farms milli landa eða innan lands o.s.frv. Þessar skilgreiningar eru þó að sjálfsögðu ekki tæmandi og æskilegt að félagið hafi frekari viðmið til að starfa eftir. Sú leið er því farin í frumvarpinu að lagt er til að stjórn félagsins að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins geri tillögu til fjármálaráðherra um frekari almenn viðmið sem leggja skal til grundvallar því að fyrirtæki gætu fallið í þennan flokk atvinnufyrirtækja.

Þegar þessar tillögur liggja fyrir skal fjármálaráðherra leita umsagnar viðkomandi þingnefnda um efni þeirra og gefa viðmiðin út í formi reglugerðar. Stjórn félagsins tekur sjálf ákvörðun um það á grundvelli hinna almennu viðmiða reglugerðarinnar hvaða atvinnufyrirtæki falli undir skilgreininguna. Félagið gengur síðan til samninga við fjármálastofnanir eftir atvikum um kaupin enda rúmist þau innan fjárhags félagsins. Miklu skiptir að félag sem þetta verði eins sjálfstætt í störfum sínum og unnt er.

Í dag liggur umfang þessa eignaumsýslufélags að sjálfsögðu ekki að fullu fyrir og því er gert ráð fyrir að þriggja manna nefnd leggi mat á heildarupphæð stofnfjár eða þörf fyrir aukningu þess miðað við áætlað umfang starfseminnar og árlega þörf þess fyrir rekstrarfé. Til þess að hægt verði að hefjast handa um það sem fyrst að stofnsetja félagið, kjósa því stjórn, ráða framkvæmdastjóra og hefja annan undirbúning, þar á meðal að greina umfang vandans og skilgreina viðmið um þjóðhagslega mikilvæga starfsemi, er í frumvarpinu gert ráð fyrir 20 millj. kr. stofnfjárframlagi sem greiðist úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir því að þegar félagið hefur hafið starfsemi verði rekstrarkostnaðurinn að einhverju eða jafnvel að öllu leyti borinn af þeim félögum sem tekin verða inn í félagið. Varðandi kaup á eignarhlutum af fjármálastofnunum inn í félagið er gert ráð fyrir að um það verði samið hverju sinni og eftir fremsta megni reynt að tryggja hagsmuni skattgreiðenda og kröfuhafa til framtíðar með því að fá sem mest virði fyrir eignarhlutina í framtíðinni og leitast við að vernda og efla virka samkeppni í íslensku atvinnulífi um leið.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að félagið skuli hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá stofnun þess og verður því þá slitið. Er þetta gert til þess að undirstrika að um tímabundna ráðstöfun er að ræða og ekki er ætlunin að slíkt félag reki rekstrarhæf atvinnufyrirtæki lengur en brýna nauðsyn ber til. Fjármálaráðherra mun í reglugerð mæla fyrir um hvaða áherslur og viðmið verða höfð til grundvallar við sölu fyrirtækja sem eignaumsýslufélagið kemur til með að hafa í sinni umsjá.

Við vinnslu þessa frumvarps hefur verið horft til erlendra fyrirmynda sem eru vel þekktar, m.a. sænskra, en þekkt er að félög af þessu tagi hafi verið stofnuð með ágætum árangri til þess að létta á bankastofnunum vegna umfangsmikilla endurskipulagningarverkefna þannig að þær geti betur sinnt hefðbundinni bankastarfsemi við fyrirtæki og almenning. Aðferðafræðin er þannig kunn og alþjóðlega viðurkennd. Við samningu frumvarpsins var þó horft til þess að aðstæður hér á landi eru um margt ólíkar því sem var t.d. í Svíþjóð. Stærsti munurinn felst án efa í þeirri aðferðafræði sem beitt var hérlendis með setningu laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þ.e. neyðarlögin svonefndu. Vegna þeirrar ráðstöfunar á eignum og skuldum bankanna í nýja og gamla banka, sem gert er ráð fyrir í þeim lögum, eiga nýju bankarnir betri möguleika á að koma stærri hluta þeirra fyrirtækja sem eiga í vanda til aðstoðar en ella hefði verið án meiri háttar aðgerða. Þessi er helsti munurinn á aðstæðum hér og þeim sem voru t.d. í Svíþjóð þar sem eignaumsýslufélagið leysti til sín ýmis stór og erfið viðfangsefni frá bönkum sem að sönnu höfðu ekki komist í þrot eða voru til skipta heldur voru á sama tíma endurfjármagnaðir að verulegu leyti eða jafnvel að öllu leyti af því hinu sama ríki, þ.e. sænska ríkinu.

Af sömu ástæðum má gera ráð fyrir að megináherslan hjá eignaumsýslufélaginu hér verði að aðstoða bankana við endurskipulagningu eða að færa eignarhluti í atvinnufyrirtækjum frá þeim inn í félagið, ef nauðsynlegt er talið, en síður að færa lán eða kröfur yfir í slíkt félag. Með öðrum orðum, hér er ekki verið að stofna banka. Með því næst fram aðskilnaður á eignarhaldi og bankastarfsemi þannig að félagið mun þurfa að semja við kröfuhafa á viðskiptalegum forsendum í samráði við aðra eigendur, ef einhverjir eru, og sú hlið málsins sem snýr að almennri bankastarfsemi verður áfram hjá hlutaðeigandi fjármálastofnunum. Í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir þeim möguleika að félagið geti keypt tilteknar kröfur eða veðskuldir ef þannig aðstæður skapast að slíkt sé metið nauðsynlegt.

Vegna umfangs þess vanda sem blasir við íslenskum fyrirtækjum telur ríkisstjórnin nauðsynlegt að stofna félag sem þetta sem vinni í sátt við bankana og í samstarfi við þá og aðila vinnumarkaðarins að endurreisn íslensks atvinnulífs. Með því er eindregið mælt af þeim ráðgjöfum bæði innlendum og erlendum sem íslensk stjórnvöld eiga samráð og samstarf við um þessar mundir.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.