137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við lifum á miklum ólgutímum, tímum þar sem forustumenn ríkisstjórnarinnar tala fyrir víðtæku samráði, m.a. við aðila vinnumarkaðarins, til að koma á svokallaðri þjóðarsátt til þess að við getum unnið okkur út úr því erfiða ástandi sem blasir við okkur öllum. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra, í ljósi þess að aðilar vinnumarkaðarins gagnrýndu harðlega það frumvarp sem minnihlutaríkisstjórnin lagði fram á síðasta kjörtímabili, hvort núverandi ríkisstjórn hafi með einhverjum hætti haft samráð við Alþýðusamband Íslands eða Samtök atvinnulífsins, þeirra samtaka sem lögðust eindregið gegn þeirri hugmyndafræði sem vinstri stjórnin hefur lagt hér fram. Og þess vegna spyr ég í anda þess sem ríkisstjórnin hefur boðað: Var eitthvert samráð haft við aðila vinnumarkaðarins áður en þetta frumvarp var lagt hér fram öðru sinni?