137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fylgja því eftir sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi áðan um samráðið. Í svari hæstv. fjármálaráðherra segir hann að það hafi borið á góma við aðila vinnumarkaðarins og mismunandi sjónarmið hafi verið reifuð. En við lestur frumvarpsins kannast ég ekki við að tekið hafi verið mikið mark á þeim harðorðu athugasemdum sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu í efnahags- og skattanefnd á fyrra þingi. Umsagnir þeirra voru þannig að þær vöruðu beinlínis við því að þetta fyrirkomulag mundi eða gæti tafið fyrir endurreisn Íslands. Þetta væri spurning um aðferðarfræði og hugmyndafræði. Aðilar vinnumarkaðarins beggja vegna borðsins voru með hugmyndir um endurreisnarsjóð og annars konar aðferðarfræði til að koma þessum fyrirtækjum í gagnið sem við öll erum sammála um að þarf að gera.

Í ljósi þess spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hefði ekki verið betri bragur á því að hafa samráð við (Forseti hringir.) aðila vinnumarkaðarins á meðan samningu frumvarpsins stóð í staðinn fyrir að verið sé að ræða það núna á öðrum stað í bænum þegar frumvarpið er komið fram? Er það allt samráðið?