137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir þetta áðan. Samráð um hluti felur ekki endilega í sér að einn tiltekinn aðili eigi að ráða algerlega niðurstöðunni. Ríkisstjórn hlýtur að hafa eitthvað um það að segja hvernig hún leggur málið fyrir Alþingi og það að eiga samráð við aðila vinnumarkaðarins þýðir ekki að það megi t.d. ekki leggja mál fyrir Alþingi og það sé þá í höndum Alþingis að útkljá það hvort menn vilji að farin sé þessi leið eða einhver önnur. Alþingi kallar að sjálfsögðu eftir sjónarmiðum úr samfélaginu og aðilum vinnumarkaðarins eins og öðrum.

Ég held að það eigi alls ekki að stilla þessum hlutum þannig upp að þetta sé annaðhvort eða. Það sé annaðhvort þessi aðgerð og þetta tiltekna tæki verði búið út eða að stofna endurreisnarsjóð í samstarfi við lífeyrissjóði eða að laða að aðra fjárfesta eða að skrá þessi fyrirtæki inn í Kauphöllina um leið og fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra er lokið. Allt þetta kemur að sjálfsögðu til greina og á að gerast eftir atvikum eftir því hvað hentar hverju sinni. (Forseti hringir.) Og þetta tæki sem hér á að búa til er einungis einn lítill þáttur í því viðamikla starfi sem hér þarf að vinna og snýr að endurreisn atvinnulífsins.