137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að aðili úti í bæ eigi ekki að ráða niðurstöðunni. En þegar ítrekað er talað um að samráð sé lykilorðið í þessu samhengi og verið sé að taka — hæstv. ráðherra sagði það í ræðu sinni — tillit til athugasemda sem fram komu, þá vil ég bara leyfa mér að halda því fram að það sé ekki rétt vegna þess að ekkert tillit er tekið til grundvallarathugasemda sem gerðar voru á fyrri stigum málsins. Það er eiginlega öll hugsunin á bak við frumvarpið sem kemur hér nær óbreytt þrátt fyrir að athugasemdirnar hafa allar lotið að því.

Annað sem ég get nefnt er t.d. skilgreiningin á hugtakinu þjóðhagslega mikilvægt, sem við í nefndinni reyndum oft og ítrekað að fá fram nánari skilgreiningar á. Og atriði eins og það að þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki eru venjulegast þau sem fyrst er bjargað einmitt út af því. (Forseti hringir.) Þau ganga kaupum og sölum einmitt út af því að þau eru þjóðhagslega hagkvæm. Öll hugsunin í frumvarpinu kemur hérna eins og gamall kunningi en ekki er búið að taka tillit til grundvallarathugasemda.