137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Búið er að taka tillit til athugasemda sem komu fram af hálfu þingnefnda og einnig utan úr þjóðfélaginu, en það er ekki búið að henda frumvarpinu. Ekki var hætt við að flytja það heldur er það ásetningur okkar að þetta tæki verði til.

Mér finnst vera ýkt upp mikil tortryggni í þessu máli sem engin ástæða er til. Það er ekki þannig að skuldaúrvinnsla í flóknum stórum verkefnum í bankakerfinu sé án vandkvæða eða einföld viðureignar. Menn þekkja þá gagnrýni sem upp hefur komið á ýmis tilvik í þeim efnum undanfarna mánuði.

Að sjálfsögðu óskum við þess að bankarnir reynist færir um að leysa úr sem flestum og helst öllum þessum verkefnum. Þá reynir ekkert á þetta tæki, en að það sé til staðar ef niðurstaðan verður sú í samstarfi banka og stjórnvalda að einhver tiltekin erfið úrlausnarefni séu (Forseti hringir.) betur komin þar þá finnst mér það mikil tortryggni að mega ekki einu sinni leyfa því að verða til.