137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þegar maður les í gegnum frumvarpið koma orð eins og ríkisbákn, áætlanabúskapur og þjóðnýting upp í hugann sem minnir óneitanlega á Sovétríkin sálugu. Það er því kannski viðeigandi að það sé hæstv. fjármálaráðherra sem flytur þetta mál.

En það er ýmislegt sem maður hefur áhyggjur af og greinilegt að þeir sem sendu inn umsagnir tóku undir áhyggjur hvað varðar hin almennu viðmið um hvað þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki eru. Manni finnst óneitanlega eins og verið sé að flýta sér allt of mikið við að leggja þetta frumvarp fram og að ekki skuli vera hægt að vinna það betur og setja inn í lögin hver þessi viðmið eru í staðinn fyrir að ætla að koma með reglugerðir seinna sem verða lagðar fyrir þingið. Hvernig ætlum við að skilgreina hvað eru þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki og setja inn í lögin hvernig ætlum við að standa að söluferlinu? (Forseti hringir.) Ég spyr því hvort hæstv. ráðherra hafi engan veginn getað séð það fyrir sér að hægja kannski á vinnunni við að leggja frumvarpið fram og vinna þetta aðeins betur og setja það inn í lögin í staðinn fyrir reglugerð einhvern tímann seinna.