137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Forseti. Ef ég fer aðeins yfir tilurð þessa frumvarps var það þannig að í október komu upp hugmyndir um hvort rétt væri að setja á stofn eignaumsýslufélög til að taka við vandamálum sem upp kæmu í bankakerfinu vegna kreppunnar. Sænski bankasérfræðingurinn tók undir það og upp úr því komu fyrstu drög að frumvarpinu sem kynnt voru á Alþingi fyrir kosningar.

Unnið hefur verið þó nokkuð í því síðan og hefur það tekið nokkrum breytingum. En það er kannski rétt að fara aðeins yfir reynslu annarra þjóða af þessu fyrirkomulagi. Tíðkað hefur verið frá því í byrjun 10. áratugarins að eignaumsýslufélög séu stofnuð til að auðvelda endurskipulagningu í fjármálakreppu og í meginatriðum er um tvær tegundir félaga að ræða: Annars vegar eru það félög sem taka yfir lánasöfn banka og sérhæfa sig í að hámarka virði þeirra í endursölu á markaði. Hins vegar eru það félög sem einbeita sér að endurskipulagningu fyrirtækja sem hafa lent á borði fjármálastofnana. Hér er raunar um þess konar félag að ræða.

Til er nýleg úttekt sem gerð var af einum starfsmanna Alþjóðabankans á því hversu vel þetta fyrirkomulag hefur reynst og sú lesning er dapurleg. Í miklum meiri hluta tilfella hafa upphafleg markmið alls ekki náðst sem bendir til að þetta sé ekki vænleg leið til árangurs. Í löndum eins og Gana, Mexíkó og Filippseyjum hefur þetta t.d. gengið hörmulega en þar var reyndar valið gert á mjög pólitískum grunni. Þar voru notuð orð eins og „þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki“ eða þá að grunur lék á að um sviksamlegt athæfi við myndun eignanna hafi verið að ræða í þeim fyrirtækjum eða lánasöfnum sem tekin voru yfir þar sem þau voru færð tímabundið inn í eignaumsýslufélög eða AMC, eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á áðan og það er kallað upp á enska tungu.

Jafnframt stofnuðu Finnar í sinni kreppu félag sem hét Arsenal og var ekki góð reynsla af því. Það vannst ekki vel úr eignunum þá. Allir formælendur eignaumsýslufélaga af þessu tagi benda á reynslu Svía, að þar hafi tekist sérstaklega vel upp. Þá er sjónum beint að tveimur eignaumsýslufélögum Svía, Securum og Retriva, sem stofnuð voru en árangur Svía er ekki hægt að endurtaka hérna, hæstv. fjármálaráðherra. Hvers vegna ekki? Það er í fyrsta lagi vegna þess að yfir 80% af eignum sem fluttar voru úr Gotebank og Nordea Bank voru fasteignalánasöfn. 20% sem þá standa eftir voru að mestu byggingarfélög upp á sænska vísu.

Í öðru lagi var ekki alheimsfjármálakreppa þá heldur var þetta staðbundin kreppa á Norðurlöndunum sem gerði verðmat mjög eða tiltölulega auðvelt og eignasala var ekki erfið.

Í þriðja lagi — og það er einn af mikilvægu punktunum hérna — eignasöfn bankanna tveggja sem voru yfirtekin voru það lítil að það gerði félögunum kleift að starfa sjálfstætt og án pólitískra afskipta sem aftur gerði sölu eigna mun auðveldari þar sem ekki þurfti að taka tillit til sjónarmiða á vettvangi stjórnmálanna. Aftur á móti er um mun stærri hluta af eignasafni bankanna að ræða á Íslandi. Eignaumsýslufélög á Spáni og í Bandaríkjunum hafa verið notuð í afmörkuðum verkefnum og með þokkalegum árangri og þá sérstaklega þegar tekin hafa verið yfir lánasöfn. Það höfum við t.d. heyrt núna í umræðunum í fjármálakreppunni þar sem þeir kalla þetta „Good bank, bad bank“ þar sem eru keypt útlánasöfn.

Í þeim tilfellum er um lánasöfn að ræða, eins og ég segi, sem er einfalt að endurskipuleggja og selja aftur þegar markaðir leyfa. Það hefur aftur á móti ekki gengið vel þegar um endurskipulagningu fyrirtækja er að ræða. En til að gæta sanngirni er reynt að telja upp kostina við eignaumsýslufélögin. Í fyrsta lagi er það stærðarhagkvæmni. Sérfræðiþekking á endurskipulagningu er af skornum skammti á Íslandi og getur verið ábati af því að hún sé á einum stað. Það á sérstaklega við eftir langvarandi uppgang eins og verið hefur á Íslandi, lítið hefur verið um endurskipulagningu fyrirtækja eins og verið er að gera hér. Það er mögulegt að þar sem um fjölda eigna er að ræða í hverjum einstökum banka sé hægt að búa til seljanlegri pakka en ella. Það á einkum við þegar um er að ræða lánasöfn. Miðlæg eign á lánasöfnum gerir líka samningsstöðu lánardrottna betri þannig að það er kostur. Það rýfur tengsl á milli lántakenda og banka sem gerir innheimtu ef til vill auðveldari. Það auðveldar bönkum að einbeita sér að hefðbundinni starfsemi. Það eykur líkurnar á skipulegri endurreisn. Það setur alla við sama borð þar sem verklagsreglur verða einsleitar og hægt er að gefa eignaumsýslufélögum sérstök völd sem eykur líkur á endurheimt lána og endurskipulagningu fyrirtækja. Þetta á allt saman við þegar rétt er staðið að hlutunum.

En það eru líka gallar. Gallarnir eru í fyrsta lagi þeir að bankar standa mun betur að vígi en eignaumsýslufélög þar sem þeir hafa safnað skipulegum upplýsingum um skuldunauta sína og þekkja mun betur reksturinn. Í öðru lagi: Ef lánin eða eignarhaldið eru staðsett í bönkunum skapar það mun meiri hvata til að endurheimta lán og losna við fyrirtæki úr gjörgæslu en kemur í veg fyrir tap í framtíðinni.

Í þriðja lagi geta bankar útvegað fjármögnun sem þarf alltaf við endurskipulagningu fyrirtækja vegna þess að þeir eru bankar. Ef eignir eru færðar til eignarhaldsfélaga er ekki lengur um virka stýringu að ræða sem getur skaðað greiðsluviljann í fyrirtækjunum og leitt til áframhaldandi eignabruna. Það er nær óframkvæmanlegt að tryggja sjálfstæð félög eins og eignaumsýslufélögin frá stjórnmálunum þegar um svona stóran hluta af eignum eins hagkerfis er að ræða og er á Íslandi. Reynsla af þessu samanteknu, kostir og gallar, reynsla annarra þjóða, lesið saman við þetta frumvarp gefur ekki sérstaklega tilefni til mikillar bjartsýni varðandi þessa hugmynd.

Hvað varðar frumvarpið sjálft er ekki augljóst hvaða vandamál félaginu er ætlað að leysa. Við fórum þá sérstöku leið að kljúfa bankana og gömlu bankarnir starfa eins og nokkurs konar eignaumsýslufyrirtæki í dag. Það er með öllu óljóst hvernig frumvarpið mun leiða til bættra starfshátta og hvernig fyrirtækið sem stungið er upp á muni flýta fyrir uppbyggingu raunhagkerfisins. Bankarnir hafa þegar komið sér upp eignaumsýslufélögum. Hvað kemur mönnum til að halda að ríkið sé betra í að endurskipuleggja fyrirtæki en eigendur, starfsmenn og bankar þrátt fyrir að bankarnir séu tímabundið í ríkiseigu?

Þá er ekki ljóst hvað við er átt með þjóðhagslega mikilvægu fyrirtæki. Loðnar skilgreiningar, eins og þó er gerð tilraun til að koma með, gefa færi á pólitískri íhlutun og spillingu og við þurfum ekki á því að halda ofan í allt annað að hér grasseri pólitískri spilling. Síðan er spurning hvort Seðlabankinn sé rétti aðilinn til að ákveða, ef þessi leið yrði farin, hvaða fyrirtæki er þjóðhagslega mikilvægt og hvaða fyrirtæki er það ekki. Ég held að hann hafi engar forsendur til þess. Ég veit ekki betur en að seðlabankamenn séu sérfræðingar í peningastefnunni og hafi ekkert vit á rekstri fyrirtækja, enda eiga þeir ekki að gera það.

Bent var á áðan að ekki sé nánar tilgreint hvernig standa eigi að fjárhagslegri endurskipulagningu heldur eigi það að koma fram í reglugerðum sem er nokkurs konar opinber tékki hvað raunverulega á að fara fram. Ákvörðun um það verður hjá framkvæmdarvaldinu fyrir utan þingið og við höfum þá ekki lengur neitt um það að segja. Mér sýnist að frumvarpið muni festa varanlega í sessi ríkisvæðingu atvinnufyrirtækja á Íslandi þrátt fyrir að það sé sólarlagsákvæði hér. Það vantar alla hvata fyrir þá sem starfa að þessu að losna við fyrirtækið út úr eignaumsýslufélaginu. Bankarnir hafa þann hvata vegna þess að þeir glíma við það nótt og nýtan dag að vera með sem bestan efnahagsreikning og það er þeirra hvati. Hérna er enginn hvati fyrir hendi.