137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:47]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Segjum sem svo að sú skilgreining liggi fyrir hvað sé þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki og að nauðsynlegt sé að halda því gangandi. Það er þá ljóst að það er ekki í samkeppni, er það ekki? Vegna þess að ef annað fyrirtæki gæti gert það sama væri það ekki þjóðhagslega mikilvægt.

Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði áðan með það sem gerðist í Svíþjóð. Þetta voru lánasöfn sem voru flutt yfir í eignaumsýslufélögin í Svíþjóð, þetta voru ekki fyrirtæki eins og verið er að tala um hérna. Svo væri kannski fróðlegt að heyra ef hæstv. fjármálaráðherra gæti endursagt aðeins af því sem sænski ráðgjafinn sagði um þetta frumvarp, hvað hann hefur sagt um það. Við getum hlegið saman að því. Það væri mjög fróðlegt. Því miður eru það ekki opinber gögn en þú gætir kannski talað aðeins um hvaða álit hann hefur á þessu.