137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og fyrir að vísa í empirískar rannsóknir á því sem áður hefur verið gert á þessu sviði. Ég held að þar hljótum við að vera sammála um að nærtækara sé fyrir okkur að líta til reynslunnar í Svíþjóð og Finnlandi en kannski í ýmsum öðrum ríkjum sem vísað var til. Um leið held ég að það sé óhjákvæmilegt að hafa í huga hversu gríðarlega umfangsmikill vandi okkar er. Sá fjöldi fyrirtækja sem glímir við mikla erfiðleika og fjöldi stórra lykilfyrirtækja er mjög verulegur og kallar auðvitað á það að við grípum til sérstakra ráðstafana.

Ég held hins vegar þegar við lítum til þess að á vegum ríkisbankanna eru eignarhaldsfélög — hér hafa áður í sögunni verið eignarhaldsfélög eins og Hömlur forðum tíð — þá ætti það að ríkið setji upp sérstakt eignarhaldsfélag til að leysa í raun og veru sams konar vandamál á sams konar grundvallarsjónarmiðum en þó með því að skilja það út úr bankakerfinu að geta haft þá kosti að auka gagnsæi og tryggja betur m.a. samkeppnissjónarmið og þær áhyggjur sem einkafyrirtæki og menn á markaði hafa í þeirri stöðu sem upp kemur þegar ríkisbanki verður eignaraðili að fyrirtæki á samkeppnismarkaði.