137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Í því ágæta frumvarpi sem fjármálaráðherra mælti fyrir og við ræðum hér og veltum fyrir okkur eru nokkur atriði sem hafa vakið athygli mína. Það eru fyrst og fremst spurningar varðandi einstakar greinar, spurningar um innihald frumvarpsins, spurningar um túlkun og spurningar um það hvernig menn ætla að klára þau mál sem þarna eru sett fram.

Ég vil byrja á því að ræða aðeins það sem margsinnis hefur komið fram hér um gagnsæi og sátt. Eins og málið liggur fyrir mér og miðað við þær umsagnir sem ég hef náð að kynna mér er það ekki svo að algjör sátt ríki um þetta ágæta frumvarp. Mig langar m.a. vitna hér í og lesa upp úr umsögn frá Alþýðusambandi Íslands. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Hins vegar er ástæða til þess að beinlínis vara við því formi sem hér er lagt til, þ.e. að ríkið stofni opinbert hlutafélag sem eignaumsýslutæki. Ljóst má vera að afar erfitt verður að ákveða hvaða fyrirtækjum eigi að bjarga og hverjum ekki. Að sama skapi kann að skapast samkeppni milli þeirra sem áhuga hafa á því að koma að endurreisninni og því vandasamt fyrir ríkið að standa í slíkri samkeppni sem eigandi bankanna. Að sama skapi verður það vafalaust tilefni mikilla deilna þegar stjórn þessa félags fer að beita sér fyrir endurskipulagningu á innviðum þeirra fyrirtækja sem fjárfest verður í.“

Gjarnan er rætt um aðila vinnumarkaðarins sem einhvers konar kröfugerðaraðila á hendur ríkinu eða eitthvað slíkt. Í þessu tilfelli eru aðilar vinnumarkaðarins — og ég ætla ekki að fara að lesa upp það sem Samtök atvinnulífsins sendu frá sér heldur eingöngu að vitna í það sem kom frá Alþýðusambandinu — sammála um að þetta sé varasöm aðferð sem hér er verið að fara af stað með, þetta sé varasöm vegferð sem verið er að leggja upp í.

Margar spurningar vakna, eins og ég sagði áðan. Mig langar, með leyfi forseta, að renna aðeins yfir nokkrar greinar í þessu ágæta frumvarpi. Í 1. gr. frumvarpsins er talað um þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki en eins og hefur komið fram hér hjá öðrum ræðumönnum er það algjörlega óskilgreint hvaða fyrirtæki það eru. Það kom fram hjá ræðumanni áðan að flest þau fyrirtæki sem væntanlega geta talist þjóðhagslega mikilvæg eru þegar í eigu ríkisins og það er alveg hárrétt. Ég veit ekki hvort hægt er að túlka eignarhald ríkisins á ritfangaverslunum sem þjóðhagslega mikilvægt en ef ég veit rétt er það ríkisbanki sem í dag á ritfangaverslanir. Við verðum líka að muna eftir því að ríkisbankarnir eru framlenging af ríkinu í dag í fjármálaheiminum, ríkið á þessa banka.

Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er rætt um að aðstoða fjármálafyrirtæki við fjárhagslega endurskipulagningu. Ég velti því fyrir mér hvort ekki séu þegar til aðilar á Íslandi sem vinna við þetta í dag og eru að þessu í dag.

Í b-lið 2. gr. er rætt um fyrirtæki sem þarfnast endurskipulagningar og eru í eigu bankanna eða annarra fjármálafyrirtækja. Ég velti því aðeins fyrir mér: Eru bankarnir ekki að endurskipuleggja þessi fyrirtæki?

Í c-lið segir að tilgangur félagsins sé „að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu umræddra atvinnufyrirtækja í samráði við aðra eigendur og kröfuhafa …“ Ég velti því fyrir mér hver staða þessara annarra eigenda og kröfuhafa verði þegar ríkið er hugsanlega orðið stór, ekki allsráðandi en stór eignaraðili og komið með svona ríkiseignarhaldsfélag, orðið eignaraðili í fyrirtæki, og þetta fyrirtæki er hugsanlega í viðskiptum við ríkisbanka sem ríkið á svo hinum megin frá. Í hvaða stöðu eru hinir eignaraðilarnir ef ríkinu sýnist svo að þetta sé mjög þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki og vill að það fari í eigu ríkisins?

Síðan segir í e-lið „að selja eignarhluti samkvæmt þessari grein með gagnsæjum hætti og í samræmi við gildandi lög og dreifða eignaraðild verði henni við komið“. Hvað þýðir það, hæstv. ráðherra? Hvað þýðir „verði dreifðri eignaraðild við komið“? Hvenær er henni ekki við komið?

Loks er í f-lið er talað um að byggja upp heildstæða þekkingu innan félagsins, byggja upp heildstæða þekkingu innan félags sem starfar í fimm ár. Ég velti því fyrir mér hvenær þessi heildstæða þekking verði orðin til í félaginu ef það á að byggja hana upp. Verður hún til, verður þetta félag orðið fullfært um að starfa samkvæmt þessum lögum eftir tvö ár eða þrjú ár? Hvenær verður þessi þekking til ef slíta á félaginu eftir fimm ár? Í hvað á svo að nýta þessa mikilvægu þekkingu með öllum þeim kostnaði sem því fylgir?

Í 3. gr. frumvarpsins kemur m.a. fram að:

„Við verkefni sín skal félagið leitast við að vernda og efla virka samkeppni í íslensku atvinnulífi.“

Ef þetta frumvarp verður að lögum þarf að tryggja þetta, það er ekki nóg að „leitast við“.

Í 5. gr. segir, og mjög margir ræðumenn hafa komið inn á það hér:

„Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara.“

Því hefur ekki verið svarað af hálfu ráðherra hvernig á að skipa í þessa stjórn. Mér finnst mjög eðlilegt, frú forseti, að alþingismenn og þingið fái skýr svör um það hvernig ráðherrann hyggst leggja til að skipað verði í stjórnina. Mun hann leggja það til eða mun það koma fram í efnahags- og viðskiptanefnd að nefndin geri tillögu um þetta, mun Alþingi gera tillögu um þetta, mun ráðherrann sjálfur gera tillögu um hverjir verði skipaðir í stjórn? Hver ætlar að gera það? Mér þætti vænt um ef ráðherra svaraði því þegar hann sér sér fært um að vera hér aftur í þingsalnum, það væri ágætt ef hann gæti svarað því þá hvernig á að skipa í þessa stjórn.

Síðan kemur fram í 8. gr., svo ég fari í hana, það er svo sem margt hægt að segja um 6. gr. líka en ég ætla að geyma hana aðeins, en í 8. gr. segir:

„Fjármálaráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð.“

Það er einmitt þetta sem svo margir hafa bent á að fjármálaráðherra, hvaða nafni sem hann nefnist, embætti fjármálaráðherra er veitt mjög mikið vald. Því er veitt það vald að setja reglugerð og þá reglugerð þarf einungis að kynna eins og það er orðað í frumvarpinu. Það er í rauninni sagt hér, í 6. gr. er vitnað í 8. gr., í greininni er mælt fyrir um það að áður en reglugerðin er formlega sett verði hún borin undir viðeigandi þingnefndir. Hvað þýðir það? Hvað þýðir það að hún sé borin undir þingnefnd? Á þingnefndin að fjalla um hana eða verður bara leitað álits á fallegum nefndarfundi: Hvað finnst ykkur? Hvað meina menn með þessari grein?

Í athugasemdum við frumvarpið er ýmislegt að finna sem annaðhvort stenst ekki eða er í miklu ósamræmi við þau orð sem ráðherra hefur haft hér uppi. Það kom m.a. fram í ágætri ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar áðan varðandi hina svokölluðu sænsku leið eða þá leið sem Svíarnir fóru að þar voru allt aðrar aðstæður og þar var farin allt önnur leið. Það er eitt sem kom ekki fram og það er að Svíarnir settu mjög mikla fjármuni inn í það félag sem þeir voru með en í þessu frumvarpi virðist ekki vera gert ráð fyrir að setja fjármuni að neinu marki a.m.k. inn í þetta ágæta félag.

Þetta er stórt mál og það á, eins og kom fram áðan og er alveg hárrétt, að vera hafið yfir skothríð út af flokkadráttum eða einhverju slíku en það var því miður þannig að í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra í gær byrjaði þessi skotgrafahernaður í ræðu 1. flutningsmanns Vinstri grænna í þeirri umræðu.

Ég vil líka velta hér upp setningu sem kemur fram til skýringar í þessu frumvarpi sem mér finnst í raun ekki skýra neitt. Þar stendur, (Gripið fram í.) það er verið að skýra hvað átt er við með orðunum þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki eða reyna að skýra það, það tekst ekki:

„Með öryggishagsmunum er hér t.d. átt við starfsemi sem snýr að fæðuöryggi, fjarskiptum, flutningi fólks eða farms milli landa eða innan lands.“

Hvað er hér nákvæmlega átt við? Er átt við félag sem ríkið eignaðist nýlega að ég held meiri hluta í eða ríkisbanki, sem er Teymi og er símafélag? Er verið að tala um flugfélagið Icelandair? Hvað er verið að tala um í þessu máli? Því verður að svara, fjármálaráðherra verður að svara því hvort hann er að undanskilja fyrirtæki sem eru í samkeppnisrekstri eða hvort hann er að tala um fyrirtæki sem eru með einokun á markaði. Það skiptir verulegu máli þegar svona frumvarp er lagt fram.

Ég sagði áðan að mörgum spurningum væri ósvarað í þessu frumvarpi og þar eru svona fjórar hvað stærstar að mínu viti sem þjóðin þarf að fá svar við, sem þarf að hafa á hreinu áður en farið er í þessa vegferð. Það er m.a. spurningin hvaða fyrirtæki þetta eru sem falla undir skilgreiningu fjármálaráðherra. Eru þetta fyrirtæki í samkeppnisrekstri eða eru þetta einokunarfyrirtæki og hvaða fyrirtæki getur hann þá nefnt? Hvernig er stjórnin skipuð og hver ætlar að skipa í hana? Það skiptir líka máli. Það skiptir ekki máli út af flokkspólitík, það skiptir máli út frá því trausti sem slík stjórn þarf að búa yfir. Síðast ekki síst: Hvernig verður staðið að sölu þeirra fyrirtækja sem í dag fara inn í þetta fyrirtæki?

Ég tel mjög mikilvægt að menn gefi sér góðan tíma í að ræða um frumvarpið, þetta er mikilvægt frumvarp. Það er alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir um þetta mál. Við verðum að forðast það að ríkisvæða atvinnulífið enn frekar en orðið er. Við sjáum fram á að jafnvel heimilin verða ríkisvædd miðað við þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur komið fram með. Við ættum að vera að ræða lausn á vanda heimilanna, við eigum ekki að vera að ræða frumvarp sem hefur kannski eitthvert gildi ef eitthvað er að marka orð hæstv. fjármálaráðherra áðan. Ef frumvarpið hefur ekkert sérstakt gildi eins og lesa mátti úr orðum hans, til hvers er þá verið að leggja það fram? Af hverju byrjum við ekki á að ræða stóru málin?