137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[17:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég tala um stór eða erfið eða flókin viðfangsefni á ég ekki endilega við stór í þeim skilningi að það þurfi einhvern óskaplegan mannafla til að vinna úr þeim, heldur vegna þess að verkefnið er þannig vaxið eða þess eðlis. Við verðum að hafa í huga að bankarnir sem stofnaðir hafa verið og verið er að stofna og endurfjármagna eru ekkert óskaplega stórir. Þeir verða væntanlega öllu minni en ráð var fyrir gert í upphafi í haust, einfaldlega vegna þess að efnahagsreikningur þeirra verður eitthvað minni að vöxtum. Það hafa þegar komið upp tilvik sem hafa verið þess eðlis að bankarnir þrír hafa allir þurft að leggja saman kraftana til að ráða við úrlausn þeirra, einfaldlega vegna þess að þeir komast upp að ákveðnum stærðarmörkum. Þeir mega ekki eiga meira hjá hverjum einstökum lántakanda en tiltekin viðmiðunarmörk af eigin fé sínu. Það er líka visst áhyggjuefni til framtíðar litið að umfang þessa bankakerfis sem nú stefnir í, ef ekki verða sameiningar á bönkum eða einhverjir þeirra stækka, verður væntanlega það smátt í sniðum að það mun ekki ráða að fullu við að vera aðalviðskiptabanki t.d. allmargra stærstu útflutningsfyrirtækja landsins. Við erum ekki að tala um banka af stærðargráðunni sem var. Við erum að tala um tiltölulega litla banka, jafnvel á íslenskan mælikvarða sem glímir auk þess við öll þessi risavöxnu og erfiðu verkefni.

Ég ætla að endurtaka, ég giska á í fimmtánda sinn, að langæskilegast væri að bankarnir gætu unnið úr öllum þessum málum og að aldrei þyrfti að reyna á eignaumsýslufélagið. En ég sé ekki skaðann í því nema menn telji að það verði svo hryllilegt mál ef þetta tæki verður til að það megi alls ekki gerast, þá er eðlilegt að menn séu á móti þessu en þá taka menn áhættuna. Komi upp vandamál sem verða erfið úrlausnar með þeim tækjum sem til staðar eru í bankakerfinu er ekki upp á neitt að hlaupa, þá er hvergi að neinu að hverfa af þessu tagi. En ég tel að það sé öruggari nálgun að við treystum okkur sjálfum, að þetta tæki verði búið til, og svo vonum við hið besta og verðum sammála um að (Forseti hringir.) best væri ef aldrei þyrfti á tilvist þess að reyna.