137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús.

[13:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Þegar sjóðurinn óskaði eftir því að koma í heimsókn til Úkraínu í apríl núna fyrir kosningar og voru aðstæður mjög svipaðar þar eins og hér. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði ekki greitt út útborgun á láninu vegna þess að ríkisstjórn landsins hafði ekki staðið við samningsskilmála við sjóðinn, ekki dregið nægilega mikið saman í ríkisfjármálum og var ekki tilbúin að afhenda sjóðnum yfirstjórn orku- og lífeyrismála í landinu. Það urðu svo mikil átök í úkraínska þinginu að mér skilst að þingmenn þar hafi nánast slegist.

Þegar sjóðurinn síðan heimsótti Lettland einnig í apríl að eigin ósk voru aðstæður þar einnig svipaðar og hér á landi. (Gripið fram í: Manstu hvernig var hér ...?) Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði ekki greitt útborgun á láninu vegna þess að útgjöld og halli ríkisins reyndust vera meiri en samningurinn sagði til um og þrátt fyrir að hafa lækkað laun ríkisstarfsmanna þá um 10% var hallinn enn of mikill og stjórnvöld voru bókstaflega á hnjánum grátbiðjandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að fá að reka ríkissjóð með örlítið meiri halla.

Hvað skyldi sjóðurinn ætla að fara núna fram á við ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna? Ríkisstjórnin hefur frestað öllum aðgerðum fram yfir kosningar og virðist enn ekki tilbúin til að ræða neinar aðgerðir í ríkisfjármálum. Hún talar og talar. Það virðist vera mest talað um Evrópusambandið en lítið um það sem þarf að gera hérna innan lands.

Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi ný lög Seðlabankans og að þau væru ástæða komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég efast stórlega um að meginástæða komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé að ræða ráðningar í Seðlabankann. Ég hef hins vegar mun meiri trú á að hann sé að koma hérna til að ræða um stöðu ríkisfjármála og þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt í því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun væntanlega fara fram á til þess að við fáum þetta lán. (Forseti hringir.)

Mér fannst líka mjög einkennilegt að hlusta síðan á hv. þm. Lilju Mósesdóttur þar sem hún var einmitt að tala um ýmsar ástæður fyrir því að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefði átt að óska sjálf eftir því að sjóðurinn kæmi hingað en gerði ekki.