137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús -- nýtt sjúkrahús.

[13:48]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að taka þetta mál upp hér undir Störfum þingsins. 436 milljónir á ári í 35 ár eru gríðarháar upphæðir, enginn velkist í vafa um það. Ég hef sjálf leyft mér að spyrja þeirrar spurningar, í ljósi stöðu ríkissjóðs og þeirra ákvarðana sem fram undan eru við fjárlagagerð og fjáraukalagagerð, hvort við höfum efni á því að byggja upp tónlistar- og ráðstefnuhúsið með þeim hætti sem gert hefur verið ráð fyrir hingað til. Ég dreg enga dul á að það er nauðsynlegt að byggja gott tónlistarhús yfir Sinfóníuhljómsveit Íslands en það verður að vera rekstrargrundvöllur fyrir slíku húsi og það verða að vera til peningar, væntanlega bæði í ríkissjóði og borgarsjóði, til þess að greiða þann gríðarháa kostnað sem felst í því að byggja stórhýsið hér úti á höfn. Þá erum við ekki byrjuð að tala um kostnaðinn sem hlýst af rekstri í slíku húsi, hvers konar rekstur sem það yrði.

Ég held að við þurfum einfaldlega, frú forseti, þingheimur og borgin og kannski þjóðin öll, að velta því fyrir okkur hvort nú sé ekki rétt að staldra við og endurmeta og endurskoða þessar áætlanir, jafnvel fresta þeim um einhvern tíma. Auðvitað er það ekki auðveld ákvörðun og langt frá því að vera sársaukalaus en það hlýtur að vera hægt að meta þetta eins og annað í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem við erum í og í ljósi þeirra erfiðu ákvarðana um niðurskurð sem þarf að taka hér á næstu vikum og mánuðum.