137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús -- nýtt sjúkrahús.

[13:51]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að taka þetta stóra mál upp hér á Alþingi. Þetta er mál sem hefur margoft verið til umræðu hér í þingsölum. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég er ósammála þeim hv. þingmönnum sem hafa talað og sagt að slá eigi þessum framkvæmdum á frest. Ákvörðun mín byggist fyrst og fremst á því að þarna er um mjög stóra framkvæmd að ræða sem búið er að setja mikla fjármuni í í gegnum tíðina. Menn þurfa að hugsa það til enda hvað það þýðir að slá þessari ákvörðun á frest, loka því sem búið er að gera niðri við höfn, hvað það mun kosta til framtíðar. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnustigið í landinu.

Við sjáum nú þegar atvinnuleysið fara stigvaxandi og það kemur fyrst og fremst niður í þeim greinum sem m.a. byggja afkomu sína á byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss, á verkafólki, á arkitektum, á tæknifræðingum, á verkfræðingum, á fólki sem vinnur í byggingargeiranum. Þarna sjáum við fram á að hægt sé að skapa atvinnu á næstu árum, hugsanlega hundruð atvinnutækifæra. Ég byggi afstöðu mína á því að þarna eru atvinnutækifæri sem við eigum að hlúa að. Ég tel það algjört glapræði við þessar aðstæður að slá þessari framkvæmd á frest út frá atvinnustiginu og ekki síst vegna þess að nú þegar er gríðarlegur kostnaður til fallinn vegna þessa verkefnis. Ég fullyrði, ég hef komið að þessu verkefni í mörg ár, að það muni verða miklu dýrara fyrir þjóðarbúið að slá þessari framkvæmd á frest en að halda henni áfram.