137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús -- nýtt sjúkrahús.

[13:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þessi umræða er að þróast út í tal á milli samfylkingarþingmanna. Hér hafa komið upp hv. þingmenn Þórunn Sveinbjarnardóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson og talað fyrir því að fresta eigi tónlistarhúsinu. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson segir að það eigi að hugsa um fólk frekar en fasteignir. Svo kemur hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir og segir að það sé glapræði að fresta þessari byggingu, (Gripið fram í.) þannig að hér fer nú fram skemmtileg umræða á milli samfylkingarþingmanna. (Gripið fram í.)

Ég tel að það eigi einmitt að hugsa um fólk fremur en fasteignir, og það er ágætt að hæstv. samgönguráðherra, Kristján L. Möller, hlustar nú á. Ég tel að það eigi að hugsa um fólk frekar en fasteignir og vil því draga hér inn í umræðuna aðra framkvæmd sem er nýbygging Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það er líka dýr bygging og ég tel að það eigi að fara í hana af því að ég vil hugsa um fólk. Í því að hugsa um fólk felst líka að hugsa um fasteignir. Það var því ágætt að fá fram afstöðu samfylkingarþingmanna sem hér rífast opinberlega um það hvort fresta eigi tónlistarhúsinu eða ekki. Það gæti verið áhugavert að heyra hvað hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson segir um Landspítala – háskólasjúkrahús. Á að fara í þá framkvæmd eða ekki? Ég segi já.