137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús -- nýtt sjúkrahús.

[13:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil þakka formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, fyrir það að hann ætlar að breyta vinnulaginu í nefndinni eftir því sem mér skildist. Það er nefnilega að færast í aukana að menn byggi svona hús og fasteignir fram hjá fjárlögum og þar með fram hjá stjórnarskránni, það er ekki út í bláinn að stjórnarskráin er með þetta ákvæði. Þetta er til þess að við séum ekki að skuldbinda komandi kynslóðir án þess að vita af því. Ég nefni fyrirbæri eins og Egilshöll, sem er í miklum vandræðum. Ég nefni heilmikið af framkvæmdum opinberra aðila, sveitarfélaga líka, þó að það séu mjög ströng ákvæði í sveitarfélagalögum um að þau megi ekki skuldbinda komandi kynslóðir hafa menn verið að gera þetta engu að síður. Ég hef spurt að því aftur og aftur: Er skuldbinding fólgin í þessu? Ef það er skuldbinding á það að koma fram í fjárlögum eða hjá viðkomandi sveitarstjórn í hvað hún er búin að skuldbinda útsvarspeninga til næstu ára.

Varðandi það að veita atvinnu. Mér skilst að aðalhópur verkamanna verði Kínverjar sem þarf að flytja til landsins vegna þess að það sé mjög sérhæft verk að setja upp glerhjúpinn og svo er það eitthvert óskaplega mikið hljóðkerfi sem er ekki framleitt á Íslandi, alveg örugglega ekki. Meginkostnaðurinn felst í því að nota þann litla gjaldeyri sem við fáum að láni hjá gjaldeyrisvarasjóðnum í þetta. Ég er því eindregið á móti þessu og ég vil endilega að menn skoði það að stöðva framkvæmdir og geyma þetta hús til minningar um bruðl og óráðsíu opinberra aðila og hafa til minnis fyrir þjóðina. Ég vil nefna það að fjöldi einstaklinga hefur þurft að hætta við framkvæmdir á íbúðarhúsum sínum, fjöldi fyrirtækja hefur þurft að hætta við framkvæmdir á húsnæði sínu, skrifstofuhúsnæði og öðru. Við sjáum merki um þetta út um allan bæ. Af hverju í ósköpunum skyldi ríkið halda áfram með sína framkvæmd eins og ekkert hafi gerst?