137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús -- nýtt sjúkrahús.

[13:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að hv. þm. Pétur Blöndal skuli tala gegn útvistun, einkavæðingu og þeirri útleigustarfsemi sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, fasteignafélög sem yfirtóku eignir og slíkt. Ég held að það sé alveg rétt að við eigum einmitt að varast þetta vegna þess að í raunveruleikanum voru menn oft bara að færa út úr bókhaldinu skuldbindingar og færðu einungis leigugreiðslur innan hvers árs. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn færi skuldbindingarnar inn í rekstrarreikninga fyrirtækja og það alveg eins hjá ríkinu þegar um er að ræða langtímaskuldbindingar.

Það hefur komið fram hér í umræðunni, einmitt hjá fyrrverandi ríkisstjórn, að breyta þurfi reglunum um ohf.-félögin okkar og þau félög sem hafa verið undir E-hlutanum sem þingið hefur ekki haft neitt af að segja. Þá erum við jafnvel að tala um fyrirtæki eins og Landsvirkjun og aðra slíka aðila sem við höfum ekkert forræði yfir. Þessu var breytt og nú getur fjárlaganefnd kallað eftir upplýsingum og fengið að fylgjast með hvaða ákvarðanir eru teknar og hvernig málum er háttað. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þingið að koma þannig að málunum.

Varðandi tónlistarhúsið og hvort um er að ræða framkvæmd sem eigi að ljúka eða ekki held ég að það sé rétt að þingheimur ræði það mál og skoði. Þarna er um að ræða framkvæmd sem var áætluð upp á 24 milljarða kr. Þegar er búið að ráðstafa 10 milljörðum og að hluta til er búið að kaupa inn efni. Menn hafa rætt þetta í samhengi við atvinnumálin og ég held að menn eigi að gera það áfram vegna þess að auðvitað fellur til kostnaður ef menn hætta byggingunni. Það liggja fyrir ágætar greinargerðir, bæði frá menntamálaráðuneytinu og frá Ríkisendurskoðun, sem voru lagðar fram í fjárlaganefnd og eru opinber skjöl sem allir þingmenn hafa aðgang að. Þar er bæði fjallað um með hvaða hætti á að færa þetta í ríkisreikningi og fjárlögum eða fjáraukalögum. Þar er líka fjallað um áætlanir sem liggja að baki bæði varðandi byggingarkostnað og áætlaða leigu. Að auki er ástæða til að vekja athygli á því að þessi samningur liggur ekki endanlega fyrir á milli aðila, að ég best veit, en ég vænti þess að hann komi til okkar áður en hann verður staðfestur af menntamálaráðuneytinu. (Forseti hringir.) Umræðan er fín og mikilvæg og ég vona að við vinnum áfram að málinu af heilindum eins og hingað til.