137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er staðreynd að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hefur leitt til einhvers arðbærasta reksturs sem um getur í sjávarútvegi. Á sama tíma og íslenskur sjávarútvegur skilar miklum verðmætum í formi atvinnusköpunar, útflutnings og skatttekna þurfa aðrar þjóðir eins og t.d. Evrópusambandsþjóðirnar að veita milljarða króna í styrkveitingar til útgerðarfyrirtækja árlega.

Ágreiningur um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið á sér ekki rætur í úthlutun á veiðirétti á sínum tíma eins og hv. þingmaður sem var á undan mér í ræðustól talaði um. Segja má að sú úthlutun hafi í raun aldrei átt sér stað. Það sem gerðist var að veiðiréttur smábátasjómanna og útvegsmanna var minnkaður frá því sem áður var og takmarkaður við ákveðið hlutfall úr hverjum stofni. Þeir sem hagsmuna höfðu að gæta á þeim tíma litu á skerðinguna sem ranglæti og voru allir sammála um að það sem eftir stóð af veiðiheimildum þeirra væri réttlæti.

Deilurnar hafa snúist um heimild til framsals sem sett var í lög árið 1990 þegar í ríkisstjórn sátu m.a. hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Þegar ráðherrarnir knúðu samflokksmenn sína, þá í Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum sálugu, til að samþykkja frumvarpið um fiskveiðistjórnina og frjálsa framsalið nefndu þau hvorugt hugtakið ranglæti sem þeim verður nú tíðrætt um. Einhver útfærsla á framsali var reyndar nauðsynleg til að ná fram aukinni hagræðingu í greininni. Það sem deilunum veldur er mikill söluhagnaður þeirra sem kusu að selja sig út á sínum tíma og öll hefðum við viljað sjá aðrar leiðir farnar í því en farnar voru en við breytum því ekki í dag, virðulegi forseti.

Það er eðlilega takmarkaður almennur skilningur á kvótakerfinu enda um nokkuð flókið fyrirbæri að ræða sem á sér orðið meira en 25 ára sögu. Almenningur skynjar óréttlæti tengt kerfinu og það óréttlæti birtist fyrst og fremst í gagnrýni á afleiðingar þess framsals sem vinstri flokkarnir komu hér upp árið 1990. Vinna þarf að því að sætta skoðanir í þessu mikilvæga máli. Það verður að gerast af einhverri skynsemi en sú leið sem núverandi stjórnarflokkar hafa boðað getur vart talist það. Hún virkar helst sem ódýrt lýðskrum.

Fjöldi sveitarfélaga hefur ályktað gegn hugmyndum ríkisstjórnarinnar. Skoðun þeirra er að hin boðaða fyrningarleið stjórnvalda og hugmyndir um upptöku strandveiða á kostnað úthlutunar byggðakvóta séu reiðarslag fyrir útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki um allt land og þar af leiðandi fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild.

Virðulegi forseti. Hvers eiga þeir t.d. að gjalda sem hafa eflt atvinnulífið með löndun til vinnslu í heimabyggð á undanförnum árum? Margir þessara aðila hafa treyst á úthlutun byggðakvóta til eflingar atvinnustarfsemi sinni, atvinnustarfsemi sem er grundvölluð á því að fá og útvega hráefni allt árið. Þetta fyrirkomulag sem þróað hefur verið á undanförnum árum var sett í uppnám þegar hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra fékk þá flugu í höfuðið að boða til strandveiða. Hann boðaði breytingar á leikreglum í miðjum leik.

Hið sama á við um fyrirhugaðar hvalveiðar okkar. Ekki verður annað lesið úr skilaboðum hæstv. ríkisstjórnar en að unnið verði að því að hætta þeim aftur. Það er uppnám í sjávarútvegi með tilheyrandi afleiðingum. Vandræðaástand er að skapast í sjávarþorpum um allt land, alvarlegt vandræðaástand. Fyrirtæki sem byggja afkomu sína á viðskiptum við sjávarútveginn benda á minnkandi umsvif vegna mikillar óvissu. Hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa boðað réttlæti í sjávarútvegi, eins og þau kjósa að kalla þær aðgerðir sem þau hafa boðað gagnvart smábátasjómönnum og útgerðarmönnum um land allt. Í flestum tilfellum er um að ræða einstaklinga og fyrirtæki sem eingöngu hafa gerst sek um að spila eftir þeim leikreglum sem þessir sömu ráðherrar áttu stærstan þátt í að móta. Sú leið sem þau boða, fyrningarleiðin, er ófær og hún verður aldrei farin. Spurning er bara hversu miklum skaða þessar hugmyndir og sú óvissa sem ríkisstjórnin býður upp á verða búnar að valda áður en yfir lýkur.