137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. viðskiptaráðherra varðandi það sem hann nefnir sérstaklega í framsögu sinni um að ekki sé um auknar álögur fyrir ríkið að ræða með þessu frumvarpi hvort eitthvað hafi verið kannað hvort þetta muni leiða til aukinna álaga á fyrirtæki. Eins og við heyrum sífellt í fréttunum er staða fyrirtækja á Íslandi frekar erfið þannig að maður mundi telja að það væri ástæða fyrir ríkisvaldið að íhuga hvort það leggur auknar álögur á fyrirtækin eða ekki.

Þegar þetta frumvarp var lagt fyrst fram kom fram spurning um hvort hæstv. viðskiptaráðherra hefði kynnt sér hvort gætt væri að kynjahlutföllum hjá opinberum hlutafélögum, eins og t.d. í stjórnum bankanna. Það kom einmitt fram í ræðu hæstv. ráðherra að hann hafði þá ekki kynnt sér það þannig að spurning er hvort hann sé búinn að kynna sér hvort lögum væri fylgt um kynjahlutföll opinberra hlutafélaga, eins og nú er ætlast til að verði gert með hlutafélög og einkahlutafélög.