137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:16]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra um 1. gr. Af hverju er í raun ekki kveðið þarna fastar að orði en „stjórnin skal gæta þess“? Af hverju kemur ekki jafnframt fram að stjórnin eigi að bera ábyrgð á að þessar upplýsingar séu réttar þar sem jafnframt er í greinargerðinni vísað til refsilaga ef þessi skylda er brotin?

Í öðru lagi langaði mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra um samstæðutengsl, hvort þau muni líka eiga við einstaka hluthafa sem sitja í stjórn og samstæðutengsl þeirra við önnur fyrirtæki, og hvort í kjölfar þessa frumvarps fylgi hugsanlega frumvarp sem banni samstæðutengsl með einum eða öðrum hætti eins og við urðum svo berlega vör við í hruninu hér á haustdögum.

Í þriðja lagi langaði mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann telji að Alþingi sé þess umkomið að setja lög sem kalli á kynjakvóta þegar Alþingi er ekki til þess bært að sjá til þess að í nefndum og ráðum þingsins (Forseti hringir.) sitji jafn hluti kvenna og karla.