137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:17]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel sjálfur að orðalagið „stjórnin skal gæta þess“ sé nokkuð afdráttarlaust en ef þingmaðurinn eða aðrir þingmenn telja að hér þurfi að kveða fastar að orði er mér það alveg að meinalausu að fram komi aðrar tillögur og þær verði skoðaðar. Sjálfur tel ég að þetta sé nokkuð afdráttarlaust.

Varðandi samstæðutengsl þá er ekki fjallað beinlínis í frumvarpinu um það sem kalla mætti samstæðutengsl vegna þess að einstakir hluthafar tengist öðrum fyrirtækjum. En ég tel að það sé alveg rétt hjá þingmanninum að slík tengsl voru ein af þeim meinsemdum sem urðu þess valdandi að íslenskt viðskiptalíf stóð jafntæpt og raun bar vitni síðastliðið haust og má vel skoða það að reyna að koma einhverjum böndum á slíkt. Það mætti t.d. gera með breytingum á skattalögum sem heyra ekki undir mitt ráðuneyti.

Um kynjakvóta verð ég því miður að upplýsa að ég hef ekki átt neinn hlut að máli í kosningum í nefndir þingsins frekar en öðrum kosningum þannig að ég get ekki svarað fyrir hvernig til tókst þar.