137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra svörin. Ég leyfi mér að beina því til hv. viðskiptanefndar að hún taki til skoðunar þetta orðalag í 1. gr. „stjórnin skal gæta þess“ vegna þess að í 3. gr. stendur einnig „gætt skal að kynjahlutföllum“, en ég tel ekki að þetta orðalag þýði eða feli í sér ábyrgð á einu eða neinu. Ég æski þess að hv. viðskiptanefnd taki til greina að skoða orðalag.

Hvað varðar kynjahlutföllin spurði ég hæstv. ráðherra að því hvort hann teldi að Alþingi væri til þess bært að setja lög fyrir samfélagið þegar það getur ekki sjálft framfylgt því innan þings hvernig kosið er í nefndir og ráð. Ekki hvort hann hefði komið að vali heldur hvort hann teldi að löggjafinn væri til þess bær að setja öðrum skilyrði sem hann getur ekki uppfyllt sjálfur.