137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

Mats Josefsson og vinna fyrir ríkisstjórnina.

[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að áform voru uppi hjá Mats Josefsson að hætta störfum en slík áform eru ekki uppi á borðum lengur. Menn hafa talað saman og farið yfir stöðuna. Það er ljóst að meiningarmunur var um áherslur og vinnubrögð en ég hef fulla trú á að eftir að menn hafa farið yfir stöðuna og talað saman muni menn samræma sjónarmið. Mats Josefsson er áfram að störfum og mun vinna áfram með okkur að þeirri brýnu endurskipulagningu sem fram undan er.

Mats Josefsson taldi t.d. að vinna hefði átt hraðar í endurskipulagningu á bankakerfinu en margvíslegar ástæður eru fyrir því að ekki hefur tekist að vinna hraðar en raun ber vitni. Mat á bönkunum varð miklu flóknara en menn gerðu ráð fyrir og þar af leiðandi samningaviðræður við kröfuhafana einnig. Það er líka staðreynd að ágreiningur var í þinginu, t.d. um afgreiðslu á eignaumsýslufélagi sem Mats Josefsson lagði mikla áherslu á. Það var ekki afgreitt á síðasta þingi, m.a. vegna andstöðu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna.

Vonir standa til að úr þessu máli leysist og þetta eignaumsýslufélag verði m.a. afgreitt á þessu þingi. Við munum líka á næstu dögum afgreiða það sem Mats Josefsson hefur lagt áherslu á, þ.e. eigendastefnu vegna ríkisbankanna. Þetta eru allt liðir í því að ná því fram að endurskipulagning á bankanum geti legið fyrir í síðasta lagi í byrjun júlímánaðar. Sá ágreiningur sem uppi var milli aðila er vonandi leystur.