137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

Icesave-reikningarnir.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður kannski ekki alveg nægilega skýr að því er varðar það lán og þá skilmála sem hún er að tala um. Ef hv. þingmaður er að tala um það lán sem Bretar veittu — (Gripið fram í.) já, það voru 100 milljónir punda, það hefur verið endurgreitt þannig að það er þá ekki um það lán að ræða.

Mikill kraftur hefur verið settur í að fá niðurstöðu varðandi Icesave-reikningana og samninga um þau kjör. Til stóð að halda fund 21. maí en því miður gat ekki af honum orðið. Bretar báðu um frest á þeim fundi, höfðu lögmæt forföll, en sá fundur verður væntanlega 2.–4. júní. Við erum að vonast til að við fáum niðurstöðu að því er varðar það mikilvæga mál þá. Það skiptir verulegu máli fyrir okkur að lánakjörin verði okkur ekki ofviða.

Það er ánægjulegt að viðræður um lánasamninga á Norðurlöndunum, vegna lána þar, virðast vera í höfn. Niðurstaðan virðist vera ásættanleg og verður vonandi kynnt fljótlega.