137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

Icesave-reikningarnir.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki svarað síðustu spurningunni hjá hv. þingmanni. Ég skal afla mér upplýsinga og koma þeim til hv. þingmanns. Varðandi það að sett séu skilyrði í tengslum við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að við höfum samið um Icesave og gengið að því sem þeir óska eftir, þá er það ekki rétt. Við göngum ekki að einhverju sem AGS leggur fram. Um er að ræða samninga milli tveggja aðila og báðir þurfa að komast að ásættanlegri niðurstöðu. Það er ekki ásættanlegt fyrir íslenska ríkið að taka á sig lánakjör sem eru því ofviða. Um það erum við að semja, þ.e. að ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir íslenska ríkið. Ég hef góðar vonir um að það geti tekist.

Það er ekki skilyrði fyrir áætluninni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en áhersla er lögð á það að sú niðurstaða liggi fyrir og ég hef aldrei heyrt að það sé skilyrði varðandi aðild okkar að Evrópusambandinu.