137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

atvinnuúrræði fyrir háskólanema.

[15:13]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnvalda um þessar mundir er að koma í veg fyrir að það mikla atvinnuleysi sem geisað hefur í kjölfar bankahrunsins skjóti rótum til framtíðar. Ég dreg enga dul á að þar skiptir mestu að skapa almennar forsendur fyrir því að störf geti orðið til á hinum almenna vinnumarkaði. Þar skiptir mestu að lækka vexti, afnema gjaldeyrishöftin svo fljótt sem aðstæður leyfa, endurfjármagna bankana og sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Jafnframt þarf að huga að bráðaaðgerðum og þar hefur ríkisstjórnin þegar stigið mikilvæg skref með úrræðum sem samþykkt voru í byrjun mars og eiga að skapa allt að 6.000 ársverk á næstu mánuðum og missirum. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um frekari aðgerðir í þessa veru og það verður að vera forgangsmál hjá ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að hrinda þeim í framkvæmd.

Í aprílmánuði var hlutfall atvinnulausra 9,1% á landinu öllu og þar var fimmtungur ungt fólk á aldrinum 16–24 ára. Á næstu dögum og vikum munu námsmenn bætast í þann hóp, háskólastúdentar og framhaldsskólanemar. Ekki er óvarlegt að ætla að fólki á atvinnuleysisskrá fjölgi um allt að 15 þúsund ef ekkert verður að gert. Í síðustu viku samþykktu hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. menntamálaráðherra aukafjárveitingu til Nýsköpunarsjóðs námsmanna að fjárhæð 15 millj. kr. sem talið er að geti tryggt 60–90 nemendum, til viðbótar við það sem áður hefur verið samþykkt, sumarstörf við hagnýt rannsóknarverkefni í sumar. Áður hafa verið samþykktar fjárveitingar til að taka upp sumarnámskeið við háskólann. Hvort tveggja er mikilvægt og ber að þakka.

Eftir stendur að stór hluti framhaldsskólanema er án atvinnu í sumar og ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvaða aðgerðir séu áformaðar í ráðuneyti hennar til að mæta þessum vanda og hvenær megi ætla að þær komi til framkvæmda.