137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

atvinnuúrræði fyrir háskólanema.

[15:15]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrirspurnina. Þessi mál eru ekki hér til umræðu í fyrsta sinn enda hafa verið tveir hópar starfandi í ráðuneyti mínu annars vegar um sumarstörf háskólanema og hins vegar um sumarstörf framhaldsskólanema allt frá því í marsmánuði.

Meginþunginn hjá okkur hefur verið kannski fyrst og fremst á að leita úrræða fyrir háskólanema til að létta ákveðinni pressu af vinnumarkaðnum og því var ráðist í þá umfangsmiklu aðgerð að styrkja háskólann til sumarnáms. Samkvæmt nýjustu upplýsingum mínum hafa á þriðja þúsund nema sótt um að stunda sumarnám í háskólum hér á landi. Það er vísbending um að nemendur nýti sér þetta og sæki þá um lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna sér til framfærslu. Enn fremur var ráðist í, eins og þingmaðurinn kom inn á, aukaframlag til Nýsköpunarsjóðs og munar þar auðvitað um 15 millj. þar sem heildarfjárveiting sjóðsins hefur verið 40 millj. og hefur reyndar verið óbreytt í mörg ár þannig að þar munar talsvert um.

Hvað varðar framhaldsskólanema höfum við unnið með sveitarfélögunum að atvinnuframboði fyrir þá og sveitarfélögin hafa langflest lýst því yfir að þau muni ráða sama fjölda framhaldsskólanema í vinnu þ.e. ungmenni á þessum aldri, og verið hefur undanfarin ár. Svo virðist vera að vandinn verði mestur í Reykjavík þar sem ekki næst að veita öllum sem sækja um á þessum aldri störf. Við höfum unnið að því með framhaldsskólanemum að leita úrræða í framhaldsskólunum fyrir nemendur, þ.e. ekki beinlínis atvinnuúrræða, og það hefur verið í samráði menntamálaráðuneytis, framhaldsskólanema og Hugmyndaráðuneytisins að standa að sérstöku verkefni fyrir framhaldsskólanema. Síðan hefur verið ákveðin vinna í gangi hjá iðnaðarráðuneytinu um átaksverkefni fyrir nemendur á þessum aldri og ég get kannski komið að því í seinna svari mínu.