137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

atvinnuúrræði fyrir háskólanema.

[15:18]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í fyrra svari mínu höfum við verið að vinna með Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, og Hugmyndaráðuneytinu og ÍTR að úrræðum fyrir framhaldsskólanema innan framhaldsskólanna. Það verkefni hefur hlotið nafnið Frumkvæði og byggist eiginlega fyrst og fremst á hugmyndum framhaldsskólanemanna sjálfra og gengur að stórum hluta út á það að fulltrúar framhaldsskólanema lýstu strax í febrúar/mars yfir áhyggjum sínum á því að ekki yrði næg vinna fyrir alla og þeir vildu ekki að framhaldsskólanemar ættu ekki annarra kosta völ en mæla göturnar. Verkefnið miðast að því og þar er m.a. unnið með skólameisturum líka að því að hugsanlega verði hægt að meta þetta eitthvað til eininga og að standa fyrir einhverju starfi í skólunum.

Síðan er ljóst að ráðist verður í einhver verkefni sem tengjast kannski fyrst og fremst umhverfismálum. Þar munu vonandi einhverjir framhaldsskólanemar líka geta sótt um og þar þyrfti hæstv. iðnaðarráðherra líklega að vera til svara. Ég bind miklar vonir við að þetta frumkvæðisverkefni (Forseti hringir.) verði til þess að framhaldsskólanemar geti sótt í uppbyggilegt starf í sumar þótt ekki verði það endilega launað.