137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég held, virðulegi forseti, að það hafi í raunverulega engin áhrif t.d. að því hvað varðar gjaldeyrisforðann hvort það lán sem við fáum þegar þessi endurskoðaða áætlun liggur fyrir er greitt út í apríl, maí, júní eða júlí. Sumir hafa talað um að það hafi áhrif á gengið. En það skiptir ekki máli í hverjum þessara mánaða lánið er greitt út þar sem núverandi gjaldeyrisforði landsins er nægjanlega öflugur til að standa við bakið á krónunni með gjaldeyrishöftunum svo lengi sem höftin eru til staðar. Og það er vafasamt t.d. að halda því fram að þetta hafi áhrif á gengið. Ég held að það breyti ekki miklu hefðum við fengið þetta fyrr. Við höfum ekki nýtt þá peninga sem við höfum hingað til fengið t.d. frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða Norðurlöndunum. Það er bara geymt á bók. Ef við hefðum fengið þetta lán fyrr hefðum við þurft að byrja að greiða vexti af því fyrr o.s.frv. (Gripið fram í.) Og skilyrðin sem ég nefndi áðan, það er stefnt að því að þetta liggi allt fyrir þannig að hægt sé (Forseti hringir.) að afgreiða annan hluta lánsins í júlímánuði.