137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

fundir í viðskiptanefnd.

[15:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem fram kemur hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur. Ég er í viðskiptanefnd og það kom mér mjög á óvart að heyra hve mikið hefði verið fundað í síðustu viku.

Stjórnarandstaðan fór fram á það á fyrsta fundi viðskiptanefndar að strax yrði gengið í það að funda um þau mikilvægu mál sem eru í gangi. Hér hefur verið upplýst af forsætisráðherra að helsti sérfræðingurinn um endurskipulagningu bankanna vildi hætta. Honum fannst allt of hægt ganga í allri vinnu og algjört stjórnleysi vera þegar kemur að þessum málum. Stjórnarandstaðan fór fram á að strax yrði fundað í viðskiptanefnd. Hvað er gert? Eini fundurinn sem átti að halda er felldur niður og síðan kemur varaformaður nefndarinnar fram í fjölmiðlum og upplýsir okkur um að allt sé á fleygiferð og verið sé að vinna á fullu í nefndinni.

Annaðhvort er verið að vinna í nefndinni án stjórnarandstöðunnar eða varaformaður nefndarinnar segir ekki satt og rétt frá, (Forseti hringir.) ég held að það sé rétt að upplýsa það. En þetta fer að verða nokkuð sérstakt. Hjá ríkisstjórn sem átti að vera gagnsæisríkisstjórn er allt unnið bak við luktar dyr og þetta er enn eitt dæmið um það.