137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

fundir í viðskiptanefnd.

[15:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er nokkuð kyndug umræða. Það er rétt að fundarfall varð í hv. viðskiptanefnd í síðustu viku enda hafði þá engum málum verið vísað til nefndarinnar og þeir tveir aðilar sem óskað hafði verið eftir að kæmu fyrir nefndina höfðu ekki tóm til þess með þeim fyrirvara sem þar var gefinn.

Hv. viðskiptanefnd fundar á miðvikudögum klukkan korter yfir tíu. Það eru fastir fundartímar þannig að fyrsti reglulegi fundurinn verður í þessari viku. Á þann fund mun nýskipaður forstjóri Fjármálaeftirlitsins mæta. Þar munum við líka taka fyrir þau mál sem þá liggja fyrir nefndinni, nú þegar er það eitt.

Ég fagna því að hv. varaformaður viðskiptanefndar leggur mikla vinnu á sig til þess að kynna sér þau mál sem liggja fyrir. Þegar hafa verið kynnt ein átta mál sem koma eiga til afgreiðslu í viðskiptanefnd á þessu stutta sumarþingi. Ég skora því á aðra hv. þingmenn í viðskiptanefnd að fylgja fordæmi varaformannsins og leggja sig eftir því að kynna sér málin fyrir fram.