137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

fundir í viðskiptanefnd.

[15:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir heiðarleika í svörum. Ég efast ekki um að hann leggi á sig mikla vinnu eins og flestir þingmenn gera.

Það breytir því hins vegar ekki að boðuð voru ný vinnubrögð, þ.e. aukið samráð og aukin samvinna við stjórnarandstöðuna. Mér finnst þetta ekki boða gott fyrir hið nýja samráð og hina nýju samvinnu sem við erum að tala um. Við nefndum það strax í upphafi að ekki var einu sinni rætt um að bjóða stjórnarandstöðunni formennsku eða varaformennsku í nefndum, það var ekki einu sinni rætt, (Gripið fram í.) ekki einu sinni til málamynda. (Gripið fram í.) Jú, Framsóknarflokkurinn gerði það einmitt. Ég hefði talið að í anda hinna nýju vinnubragða sem verið er að tala um, verið var að óska — (Gripið fram í.) fyrirgefið, ég hef orðið. (Forseti hringir.) Ég hefði talið að ræða hefði þurft um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. (Forseti hringir.) Ég hefði talið að þetta væri dæmi um það sem viðskiptanefnd, bæði stjórnarandstaðan og stjórnarmeirihlutinn, hefði getað tekið höndum saman um, þ.e. að leiðrétta mistök (Forseti hringir.) sem gerð voru á fyrra þingi af ríkisstjórninni. Nei, (Forseti hringir.) það þurfti að vinna þetta í einhverjum bakherbergjum utan þings.